153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

riða og smitvarnir.

[14:17]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Yfirdýralæknir skilaði inn tillögum að breyttu verklagi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á árinu 2021. Skömmu síðar uppgötvaðist í fyrsta skipti á Íslandi arfgerðin ARR sem veitir vernd gegn riðu. Sú uppgötvun, þótt einangruð sé við fáar kindur til að byrja með, hefur breytt í grundvallaratriðum bara þeim valkostum sem við höfum og eru til reiðu hjá bændum og stjórnvöldum til að takast á við þennan vágest.

Ég hef samþykkt tillögu yfirdýralæknis um breytta nálgun við niðurskurði á riðu og sú vinna er hafin og tilkynnt verður um næstu skref í þeim efnum á viðeigandi tímapunkti. Þar eru ýmis fagleg álitaefni sem þarf að taka til skoðunar við endurskoðunina. Það er til afar mikils að vinna að þetta gangi vel en eins og sérfræðingar Landbúnaðarháskólans sýna fram á er hægt að ná mjög miklum árangri á tiltölulega skömmum tíma svo lengi sem riðuveiki er bundin við tiltölulega lítil svæði. Þannig að já, þetta er allt í undirbúningi og er svo sannarlega á dagskrá í mínu ráðuneyti.