Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[14:28]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um að auka sveigjanleika fyrir þá stóru í greininni þannig að þeir geti flutt þúsundir tonna á milli ára, geti þess vegna talið smáfisk minna til kvóta en annan fisk og jafnvel breytt einni tegund í aðra. En þegar komið er að hinum minni í greininni þá er ekki hægt að hreyfa við einu né neinu. Sá ráðherra sem kallar sig hér því nafni og kennir sig við strandveiðar telur sig algerlega bundna af ráðgjöf Hafró hvað varðar þessa litlu í greininni. En þegar hér kemur frumvarp um hina stóru þá virðist vera hægt að færa jafnvel þúsundir og tugþúsundir tonna á milli ára. Ráðgjöf Hafró er ekki heilagri en svo. Við í Flokki fólksins erum ekki á móti sveigjanleika þeirra stóru, við viljum hins vegar að jafnt sé horft yfir sviðið (Forseti hringir.) og menn hætti að níðast á þeim smáu í greininni eins og hæstv. matvælaráðherra virðist ætla að gera (Forseti hringir.) í sumar eins og hin fyrri sumur.