Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:24]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Nú þegar þetta frumvarp er komið til 3. umr. vil ég nota tækifærið og gera grein fyrir afstöðu minni til málsins. Ég hafði ekki tekið sæti á þingi þegar gengið var frá meirihlutaáliti fyrir 2. umr. og þegar málið var rætt við 2. umr. Eftir þá umræðu var málinu vísað aftur til hv. atvinnuveganefndar sem fékk á sinn fund fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun og Byggðastofnun. Eins bárust ýmsar athugasemdir fyrir og eftir 2. umr. er lutu að óvissu um áhrif þessara breytinga á afrakstursgetu afmarkaðra fiskimiða á grunnslóð og um áhrif aukinnar afkastagetu togskipa undir 42 m á grunnmið og fjárfestingar í nýjum skipum eða breytingum á eldri skipum.

Fyrir liggur að breytingar sem boðaðar eru í þessu frumvarpi munu leiða til þess að stærri skip en þau sem veiða nú innan 12 mílna munu gera það í auknum mæli. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og einnig í áliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Þá er það svo að ekki liggur fyrir á þessum tímapunkti við afgreiðslu þessa máls hver verður niðurstaða vinnu stjórnvalda við að skilgreina viðkvæm hafsvæði og botnvistkerfi, sem eiga að njóta verndar gagnvart veiðarfærum sem snerta botninn, né heldur hvaða áhrif slíkar breytingar kunna að hafa á einstök byggðarlög, útgerðarform eða afmarkaða stofnhluta á grunnslóð.

Ég sé ekki betur en öll þessi gagnrýni eigi fyllilega rétt á sér. Ég tel frumvarpið sneiða með öllu hjá mikilvægum þáttum í málinu og ástæðum þess að reglan um aflvísi var sett á sínum tíma. Takmörkun á sókn stórra og aflmikilla togskipa á grunnslóð hefur alltaf verið í gildi í lögum, í 30, 40 eða 50 ár. Fyrst var miðað við brúttórúmlestir, síðan lengd og hestöfl en við lagabreytingu árið 1997 var aflvísisregla tekin upp.

Það er þannig að grunnslóð er afar takmörkuð og hentar ekki til magnveiða öflugra togskipa. Þetta eru hin einföldu sannindi í þessu máli. Lykilhugtak hér er afrakstursgeta fiskimiða á grunnslóð. Það er fiskurinn sjálfur, ekki veiðarfærið, búnaðurinn eða hafsbotninn, heldur fiskurinn sjálfur. Af frumvarpinu, greinargerð með því og af svörum ráðuneytis er alveg ljóst að ekki hefur verið leitað álits fiskifræðinga á afrakstursgetu afmarkaðra fiskimiða á grunnslóð og á áhrifum magnveiða afkastamikilla fiskiskipa á fiskigengd á slíkum miðum. Það er verulegur ágalli á þessu máli.

Þá hefur ráðherra og ráðuneytið ekki heldur leitað álits fiskifræðinga á stofngerð og líffræðilegri fjölbreytni helstu nytjastofna botnfisks á grunnsævi við sunnan- og vestanvert landið að mestu leyti. Í því sambandi er talið líklegt að á þessu svæði utan hrygningartíma sé að finna minni stofnhluta sem skera sig frá öðrum stofnhlutum sömu tegundar hvað varðar atferli og göngumynstur. Þess vegna þarf að gæta hófs og sýna aðgát við nýtingu þessara fiskimiða. Í frumvarpinu er ekki tekið á þessu. Það er mjög bagalegt. Nauðsynlegt væri að skoða frekar stofngerð fiskstofna í heild, aðallega þorsks, og þá líffræðilegu fjölbreytni innan tegunda og sérkenni stofnhluta sem halda til á grunnslóð. Það er vegna þess að í grunninn snýst þetta mál ekki um heildaraflamark, eins og Hafrannsóknastofnun kom inn á, heldur um samsetningu fiskiskipaflotans og beitingu hans við veiðar á þessum svæðum.

Ég tel alveg ljóst að samþykkt þessa frumvarps mun leiða til mikilla breytinga í fiskiskipaflotanum, enda er leikurinn til þess gerður. Útgerðarfyrirtæki munu fjárfesta í flota stórra og afkastamikilla togara, sem yrðu 41,9 m á lengd af því að lengdarreglan er enn 42 m í lögunum. Þess vegna verða fiskiskip 41,9 m á lengd, þverbyggð, háreist og með mikið vélarafl, og togveiðisókn á grunnslóð fyrir sunnan og vestan landið.

Ég tel að plástrar á einstaka bletti — þar sem takmörkun á veiðiálagi á tilteknum veiðisvæðum beinist að veiðarfærum fremur en stærð báta eins og Hafrannsóknastofnun hefur tiltekið — muni einfaldlega ekki bæta úr þessum vanda sem er verið að skapa, né heldur fyrirbyggja þá hvata sem myndast nú til breytinga á samsetningu fiskiskipaflotans.

Frú forseti. Hófleg nýting fiskimiða á grunnslóð er lykilregla. Þetta er varúðarregla sem hefur verið fylgt við veiðar við Íslandsstrendur áratugum saman. Með því að kippa út aflvísi er grafið undan þessari reglu. Það get ég ekki fallist á. Frumvarpið er vanreifað og ófullbúið. Horft er of þröngt á eitt tiltekið markmið, sem er ágætt í sjálfu sér, en ekki er skeytt um áhrif á önnur veigamikil atriði.

Ég heyrði eitt sinn spakmæli úr sveitinni, sem ágætt er að hafa í huga við lagasetningu. Það er á þessa leið: Áður en girðing er fjarlægð er algjört lykilatriði að vita af hverju girðingin var reist og hvaða afleiðingar það hefur að fjarlægja hana.

Frú forseti. Hér er verið að fjarlægja girðingu. Ekki hefur verið skoðað nægilega af hverju girðingin var reist og ekki skeytt um afleiðingar þess að girðingin verði fjarlægð. Ég mun því ekki greiða atkvæði með þessu frumvarpi.