Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:34]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get sagt það að ég er ekki viss hvað það er sem hæstv. matvælaráðherra er að gera með þessu frumvarpi annað en það sem kemur fram skýrt í greinargerð og er markmiðið, að draga úr olíunotkun og ná fram árangri í orkuskiptum. Þetta er eitt af þremur frumvörpum í þeirri vegferð stjórnvalda. Það eitt og sér, frú forseti, er ágætismarkmið og göfugt og ég styð alveg markmið þessa frumvarps. Ég tel bara að sú leið sem er farin sé ekki rétt. Breytingarnar munu hafa aðrar afleiðingar í för með sér en að ná eingöngu fram orkusparnaði. Og reyndar ef út í það er farið og þær raungerast sem ég er að vara hér við, þá má efast um að meira að segja markmiðið um orkusparnað nái fram að ganga. Ef samsetning flotans breytist, togskipin verða breiðari, háreistari, með meira afl, tvö troll, þá má efast um að það hafi náðst í raun og veru einhver sérstakur árangur í orkuskiptum ef það er eina sjónarhornið sem skiptir máli í þessu máli, sem ég tel ekki vera.