Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:39]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni um að það er hægt að ná um þessi atriði mun betri sátt og mun betri árangri. Við skulum þá hafa í huga þegar verið er að tala um orkusparnað og loftslagsmarkmið viðkomandi sjávarútvegi, að íslenskur sjávarútvegur hefur nú þegar á undanförnum árum og áratugum náð alveg gríðarlega miklum árangri í að draga úr orkunotkun, olíunotkun. Gríðarlega miklum árangri. Það snýr ekki bara að fiskimjölsverksmiðjunum og rafvæðingu þeirra. Það snýr að betri fiskiskipaflota, betri og nýrri búnaði, vélum o.s.frv. Þetta er auðvitað lykilatriði til að greinin í heild sinni geti haldið áfram að ná árangri í þessa veru, aukinni hagræðingu, aukinni innleiðingu nýrrar tækni og búnaðar, á grundvelli þess að það sé hægt að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi, rekstrarskilyrði greinarinnar séu enn til staðar og séu bætt. Þetta er lykilatriði. Þá náum við þeim árangri sem að er stefnt. En þetta tiltekna frumvarp, fyrir þessa tiltekna tegund veiðiskipa, er ekki til þess fallið. Það nær ekki utan um hina ólíku hagsmuni sem eru í sjávarútvegi, hvort sem það eru byggðarlög, útgerðarform eða annað sem er í þessu flókna og mikla gangverki fiskveiðistjórnarkerfisins.