Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

samningur um orkusáttmála.

749. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Nú ætla ég að biðja hæstv. ráðherra að halla sér aðeins aftur í stólnum og rifja upp fall múrsins af því að þar byrjar sagan okkar. Ég veit að það er tími sem skipti náttúrlega heiminn öllu máli, en ég held að hæstv. ráðherra eigi hlýjar minningar frá þeim tíma um þær breytingar sem fylgdu vegna þess að alþjóðlegi orkusáttmálinn sem við ræðum hér í dag á rætur að rekja til þess að kommúnisminn féll og allt í einu þurfti að koma einhverju nýju efnahagskerfi utan um austurblokkina sem féll með honum. Til að auka tiltrú fjárfesta, til að vestrænir fjárfestar legðu í það að halda í austurveg með fjármagnið sitt, var búið til m.a. það sem þá hét evrópski orkusáttmálinn sem var með ýmsum fjárfestingarviðmiðum og viðurlögum ýmsum gagnvart samningsbrotum og því sem ekki taldist vera ásættanlegir viðskiptahættir, m.a. býsna strangur gerðardómstóll sem hægt var að snúa sér til ef fólki þótti á sér brotið. Þessi samningur hefur síðan verið víkkaður út og heitir núna, með leyfi forseta, Energy Charter Treaty, köllum hann bara orkusáttmálann í fyrirspurninni. Hann hefur snúist dálítið í höndunum á fólki þannig að núna eru orkufyrirtækin farin að misnota þetta sem átti að verða leið til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði. Nú er þetta orðin leið fyrir mengandi orkufyrirtæki til að koma í veg fyrir metnaðarfullar aðgerðir ríkisstjórna í loftslagsmálum. Í gegnum þennan sáttmála er í gangi málaferli við hollenska ríkið af því að það ætlar að fasa út kolum í sinni orkuframleiðslu og ítalska ríkið er í karpi við einhvern olíurisann vegna þess að það ætlar að setja tappann í olíuvinnslu í Adríahafi. Nú er orðið svo þröngt um stöðuna að Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að réttast væri að segja sig frá þessum samningi. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni leggja til slíkt hið sama og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert, að segja Ísland úr þessum samningi, og hvort það hafi eitthvað reynt á ákvæði samningsins um gerðardómsmeðferð gagnvart Íslandi og sé svo, hvers eðlis þau mál voru og hver niðurstaða þeirra var.