Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

samningur um orkusáttmála.

749. mál
[16:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. En af því að hv. þingmaður — ég hef ekki lent í því áður sem ráðherra og ekki séð það sem þingmaður áður — var hér að leggja til að forseti myndi takmarka málfrelsi mitt, þá vísaði hann til þess ég gæti beðið um sérstaka umræðu ef ég vildi ræða það sem ég teldi tengjast málum, en við vorum að tala um líffræðilega fjölbreytni áðan og þá fannst mér nú eðlilegt að tala um Skerjafjörðinn. Á vef Alþingis eru vinnureglur um sérstakar umræður og þar segir, með leyfi forseta: „Þingmaður, sem óskar eftir sérstakri umræðu, fyllir út eyðublað á vef þingsins. Þar komi fram eftirfarandi: Heiti umræðunnar. Til hvaða ráðherra umræðunni er beint. Afmörkun umræðunnar. Helstu spurningar sem þingmaðurinn hyggst beina til ráðherrans.“ Það er því ekki um það að ræða að ráðherra geti farið í sérstaka umræðu.

Það sem hv. þingmaður er að spyrja hér um er orkusáttmáli Evrópu, Energy Charter Treaty, með leyfi forseta. Hann var undirritaður af rúmlega 50 ríkjum, þar á meðal Íslandi, árið 1991 og fullgiltur á Íslandi árið 2015. Samningurinn átti upphaflega að vernda orkutengdar fjárfestingar í gömlu Sovétríkjunum en honum hefur í seinni tíð verið beitt af fyrirtækjum innan ESB til að lögsækja stjórnvöld í öðrum ESB-ríkjum. Fyrirtæki hafa m.a. notað samninginn gegn stjórnvaldsaðgerðum sem er ætlað að draga úr olíu- og kolavinnslu og notkun kjarnorku, og aðgerðum til að halda niðri raforkuverði til almennings. Yfir 100 gerðarmál gegn ríkjum hafa verið höfðuð á grundvelli samningsins fyrir sérstökum lokuðum gerðardómi og enginn alþjóðlegur viðskipta- eða fjárfestingarsamningur hefur orðið grundvöllur eins margra gerðarmála fyrirtækja gegn ríkjum. Ítalska ríkið sagði sig frá samningnum 2016 eftir að hafa verið dæmt til að greiða 150 milljónir evra í skaðabætur til fyrirtækis í Bretlandi fyrir að banna olíu- og gasleit í Adríahafi.

Ráðuneytið hefur fylgst með þróun þessara mála á vettvangi Evrópusambandsins þar sem rætt hefur verið um að Evrópusambandið og aðildarríki þess segi sig frá samningnum en formleg ákvörðun um það hefur þó ekki enn verið tekin í Evrópusambandinu. Ítalía sagði sig frá samningnum árið 2016 eins og áður segir og a.m.k. sjö önnur ESB-ríki hafa á undanförnum mánuðum tilkynnt að þau ætli að segja sig frá samningnum: Pólland, Spánn, Holland, Frakkland, Slóvenía, Þýskaland og Lúxemborg. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort Ísland segi sig frá samningnum. En ég fagna þessari umræðu og fagna því að hv. þingmaður sé að vekja athygli á þessu. Við munum fylgjast áfram grannt með þróun mála innan Evrópusambandsins og munum taka þetta mál til nánari skoðunar í ráðuneytinu og þá í sérstöku samráði, eðlilega, við utanríkisráðuneytið og leggja mat á það hvort ástæða sé til þess að Ísland segi sig frá samningnum. Það er alveg augljóst að það er full ástæða til að skoða það mjög alvarlega hvort ekki sé rétt að fara þá leið. Hv. þingmaður spurði hvort reynt hefði á ákvæði samningsins gagnvart Íslandi en það hefur ekki gert það. En það breytir því ekki að ég held að það sé augljóst að skoða þurfi þessi mál gaumgæfilega og taka ákvörðun í kjölfarið og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa vakið athygli á málinu.