Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

samningur um orkusáttmála.

749. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og sérstaklega þetta í lokin varðandi það að ekki hafi reynt á ákvæði varðandi gerðardóm gagnvart Íslandi. Eitt það versta við þennan samning er að gerðardómsleiðin er svo fullkomlega ógagnsæ að Ísland gæti hafa staðið í alls konar málarekstri eða þurft að verjast alls konar ásókn erlendra fyrirtækja án þess að nokkuð fréttist um það. Það er því gott að fá staðfest hér í ræðustóli Alþingis að svo hefur ekki verið. Þetta eru mjög jákvæð svör sem koma frá ráðherranum varðandi framhaldið, að nú muni ráðuneytið fylgjast með þróuninni og greina stöðuna og jafnvel ákveða hvort Ísland muni segja sig frá samningnum. Hér finnst mér skipta máli að það sé gert án þess að bíða eftir einhverri niðurstöðu frá Evrópusambandinu. Það er eitthvað sem Ísland getur ákveðið af eigin rammleik. Við þurfum ekkert að leyfa Brussel að vinna sinn gang. Ég held að þetta sé bara plástur sem þurfi að rífa af.