154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 sem er 1. mál 154. löggjafarþings. Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja frumvarp til fjárlaga fyrir Alþingi þegar það kemur saman og í 25. gr. þingskapalaga segir að frumvarpið skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings. Fjárlagafrumvarpið er byggt á grundvelli fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028 sem lögð var fram og samþykkt á síðasta vorþingi.

Virðulegi forseti. Ég fjallaði um það hér í ræðustól í gær að íslenskt samfélag er á flesta mælikvarða á mikilli siglingu. Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins. Atvinnuleysi er hverfandi og starfandi fólki hefur fjölgað um meira en 30.000 frá síðari hluta ársins 2020. Mikill gangur er í helstu útflutningsgreinum og ný fyrirtæki verða til, vaxa og dafna. Fólk flytur til landsins í þúsundatali til að vinna og freista gæfunnar. Laun hafa hækkað mikið og kaupmáttur verið varinn enn frekar með breytingum á sköttum, skattalækkunum og mikilli aukningu í bótakerfi almannatrygginga, húsnæðisbætur, vaxtabætur og nýtt og öflugra barnabótakerfi. Áfram mætti lengi telja.

Það er mikill sláttur í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. óhjákvæmilega í spennu í hagkerfinu og verðbólgu. Það er ekki séríslenskt vandamál en við verðum að hafa það í huga að þetta er ástand, verðbólgan, sem snertir hvert einasta heimili í landinu.

Markmiðið liggur því í augum uppi. Við þurfum að vinna okkur í átt að meiri stöðugleika að nýju og með skynsamlegri hagstjórn er hægt að ná því markmiði. Ríkisfjármálin styðja við peningastefnuna eins og hún er framkvæmd en Seðlabankinn vinnur nú að því að ná verðbólgunni niður og hafa vextir verið hækkaðir ítrekað í þeim tilgangi.

Augljóst er að við þessar aðstæður er ríkisfjármálunum beitt með öðrum hætti en gert var í heimsfaraldrinum. Við höfum einsett okkur að bæta afkomu nú en þá leyfðum við afkomunni að versna vegna þess að við vildum standa með heimilum og fyrirtækjum og við trúðum því að við værum að glíma við tímabundið ástand og að afkoma ríkissjóðs myndi lagast á ný þegar ástandið væri yfir staðið. Það er akkúrat þannig sem hlutirnir eru að ganga eftir. Reyndar er afkoman að batna langt umfram það sem bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Í frumvarpi vegna ársins 2024 endurspeglast áframhaldandi afkomubati umfram fyrri áætlanir og hér birtast líka aðgerðir sem sýna vilja ríkisins til að vinna gegn verðbólguþrýstingnum. Að auki við betri afkomu ráðumst við í sérstakt aðhald í ríkisútgjöldum. Í fjármálaáætlun var aðhaldsaðgerðum stillt nokkuð dreift á milli tekju- og gjaldaliða en við höfum ákveðið að fara fram á meira aðhald á gjaldahliðinni. Við teljum að það muni skila meiri árangri í þessum tilgangi sem ég hef hér verið að nefna. Það viðbótaraðhald nemur á annan tug milljarða á komandi ári.

Þannig er gert ráð fyrir hagræðingu í launakostnaði upp á 5 milljarða kr. Það mun því koma til talsverðrar fækkunar stöðugilda í ríkiskerfinu, bæði í gegnum starfsmannaveltu og eftir atvikum með uppsögnum. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntunar. Við teljum að þar sé ekkert svigrúm fyrir slíkar aðgerðir.

Sömuleiðis lækkum við önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað og leggjum áherslu á enn hagkvæmari opinber innkaup, en stefnt er að um 4 milljarða hagræðingu með þeim aðgerðum. Við höfum þegar náð verulega góðum árangri á þessu sviði á undanförnum árum. Notendum island.is hefur fjölgað mjög ört og við erum nú komin upp í 5 milljónir heimsókna á ári sem er gríðarlega mikil breyting og tækifærin eru hvarvetna í opinbera geiranum til að nýta stafvæðingu lausna til að auka aðgengi að opinberri þjónustu og auka skilvirkni á sama tíma.

Við aukum aðhald innan ráðuneytanna, föllum frá verkefnum sem áður höfðu verið fyrirhuguð og þannig batna afkomuhorfurnar. Með þessu er stefnt að viðbótar 8 milljarða hagræðingu. Þessar aðgerðir verða eflaust krefjandi víða í ríkiskerfinu en við höfum náð miklum árangri undanfarin ár sem auðveldar verkið til muna.

Aftur: Stafvæðingin hefur gengið vonum framar en landsmenn geta nálgast þjónustu sem áður kostaði pappír, peninga og bílferðir með örfáum smellum. Augljóst er að yfirbyggingin á að geta minnkað og áherslurnar breyst í takt við tímann án þess að það bitni á þjónustu við fólkið í landinu. Fólk og fyrirtæki úti um allt í samfélaginu eru sífellt að leita leiða til að gera meira fyrir minna og að sjálfsögðu hlýtur ríkið og hið opinbera í heild að gera slíkt hið sama.

Virðulegur forseti. Ríkissjóður hefur staðið gegn vexti eftirspurnar og verðbólgu síðastliðin tvö ár og ætlunin er að svo verði enn á næsta ári. Gert er ráð fyrir að heildartekjur verði 1.349 milljarðar kr. eða 29,8% af vergri landsframleiðslu. Heildargjöld ríkissjóðs eru hins vegar áætluð 1.395 milljarðar eða 30,8% af vergri landsframleiðslu. Að frátöldum vaxtagjöldum er áætlað að frumgjöld verði 1.284 milljarðar kr. á næsta ári eða 28,4% af vergri landsframleiðslu. Gangi það eftir verða frumgjöldin orðin sambærileg að umfangi og þau voru árið 2019. Af þessu leiðir að 48 milljarða kr. halli er áætlaður á heildarafkomu á næsta ári en það er um 1% af vergri landsframleiðslu og hefur afkoman ekki verið betri síðan 2018. Ég verð að segja að þetta er töluvert mikill áfangi, hann er að nást fyrr heldur en að við höfðum haft vonir um.

Þá er áætlað að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoman án vaxtagjalda og -tekna, verði jákvæður um rúmlega 28 milljarða á næsta ári. Raunar var frumjöfnuður þegar orðinn jákvæður í fyrra nokkrum árum á undan áætlun en batinn milli áranna 2021 og 2022 nam um 190 milljörðum kr. Það var 190 milljarða kr. bati á frumjöfnuði á milli áranna 2021 og 2022. Ég þori að fullyrða að það eru ekki mörg dæmi í hagsögu Íslands þar sem jafn mikill bati hefur átt sér stað milli ára.

Stjórnvöld eru nú vegna alls þessa í raunhæfri stöðu til að ná fram jákvæðum heildarjöfnuði ríkisins áður en langt um líður. Tölurnar sýna, svo ekki verður um villst, skýra áherslu á að bæta stöðugt afkomuna og leggja þannig lóð á vogarskálar aukins stöðugleika í samfélaginu öllu. Á nýju ári verði lögð áhersla á að vöxtur útgjalda verði hægari en vöxtur landsframleiðslunnar þannig að frumgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu fari lækkandi. Af þessu leiðir áhersla á bætta nýtingu fjármuna og forgangsröðun verkefna innan fyrirliggjandi útgjaldaramma.

Við forgangsröðum þannig í þágu þess sem mestu máli skiptir. Heilbrigðisþjónustu, húsnæðisuppbygging, varðstaða um kaupmátt fólks og stuðningur við sívaxandi nýsköpun og samfélag eru grundvallarmál í frumvarpinu.

Framlög til heilbrigðismála vega þyngst en framlögin verða um 385 milljarðar kr. á næsta ári. Heilbrigðiskerfið er áfram byggt upp af myndugleik en bygging nýs Landspítala er langstærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu. Þannig verði fjárveiting til verkefnisins aukin um 10,5 milljarða og verður þá tæplega 24 milljarðar á nýju ári. Sömuleiðis höldum við áfram að auka framlög til reksturs heilbrigðisstofnana og hjúkrunarrýma auk þess sem framlög til sjúkratrygginga aukast vegna nýs samnings við sérgreinalækna sem náðist nú í sumar. Það var mikilvægur og góður áfangi.

Félags-, húsnæðis- og tryggingamál eru næststærsti útgjaldaliðurinn en þau nema 325 milljörðum í frumvarpinu. Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að létta skrefin inn á fasteignamarkað en þar skiptir framboð mestu máli samhliða áframhaldandi lækkun verðbólgu og vaxta. Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis sem er við sögulegt hámark í dag.

Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram. Þar spila sveitarfélög lykilhlutverk en ríkið mun áfram leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins. Markmiðið er að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Ég verð að segja að við ættum mögulega frekar að hafa áhyggjur af því að við höfum framkvæmdagetuna til þess að hrinda byggingu allra þessara íbúða í framkvæmd frekar en að það verði skortur á fjármögnun ríkissjóðs vegna þess að hún hefur með þessu verið vel tryggð. Næsta áskorun er að tryggja að framkvæmdirnar geti farið fram og þar leika auðvitað sveitarfélögin og allir þessir ferlar, frá áformum að byggingu íbúðarhúsnæðis að verklegum framkvæmdum, leika þar lykilhlutverk. Við munum sömuleiðis horfa til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins.

Það er dálítið snúið mál að áætla nákvæmlega þörfina fyrir lánveitingar til Húsnæðissjóðs þegar gengið er frá fjármálaáætlun að vori til. Þess vegna er mikilvægt að við höfum augun á þessum þætti málsins fram eftir haustinu og erum komin nær árinu 2024 þegar við tökum endanlegar ákvarðanir í því efni.

Virðulegur forseti. Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að bæta kjör og verja kaupmátt fólks undanfarin ár og það hefur gengið betur en víðast hvar, enda hafa kjör fólks rýrnað víða í nágrannaríkjum okkar á sama tíma og kaupmáttur launa á Íslandi hefur verið varinn. Hér skipta umtalsverðar skattalækkanir máli sem hafa m.a. falist í því að gera breytingar á viðmiðunarfjárhæðum milli ára á persónuafslætti og þrepamörkum í tekjuskattskerfinu. Við sjáum hvernig það kemur út á næsta ári en það verkar með þeim hætti að skattkerfið stendur með launafólki og kemur í veg fyrir skattskrið sem var afar mikið gagnrýnt vegna þess hvernig persónuafsláttur áður fylgdi vísitölu neysluverðs. En að auki við umtalsverðar skattalækkanir og breytingar í þágu launþega hefur áherslan hér á landi ekki síst verið á bótakerfin. Þannig var tekin sérstök ákvörðun um að hækka bætur umfram hækkun í fjárlögum um mitt ár 2022 og á yfirstandandi ári, 2023, til að mæta áhrifum verðbólgu. Í byrjun næsta árs tekur seinna skrefið í nýju barnabótakerfi gildi. Breytingarnar hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár og hafa tryggt 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði verið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði því auk þess sem stuðningur er efldur með hækkun fjárhæða, minni skerðingum og lægri jaðarsköttum, verða teknar upp samtímagreiðslur barnabóta sem er mjög mikið hagsmunamál fyrir barnafjölskyldur. Þetta var ekki gott kerfi sem við höfum haft til þessa þar sem foreldrar barna sem fæddust t.d. í janúar þurftu að bíða fram yfir næstu áramót til að sjá stuðningsgreiðslurnar frá ríkinu þar sem staðan var einungis tekin einu sinni á ári. Þetta eitt og sér er stórmál í nýja barnabótakerfinu sem ríkisstjórnin hefur fengið hér samþykkt sem lög og síðara skref innleiðingarinnar tekur gildi um næstu áramót.

Í fjárlagafrumvarpinu er áfram lögð áhersla á stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun og nema heildarframlög til þeirra verkefna 27 milljörðum kr. Framlögin standa í stað milli ára en þau hafa aukist verulega undanfarin ár. Þessi stuðningur hefur þegar borið ríkulegan ávöxt. Hefur störfum í hátækni- og hugverkaiðnaði fjölgaði umtalsvert síðastliðin þrjú ár. Fjárfesting vísisjóða í frumkvöðlafyrirtækjum hefur stóraukist og við sjáum að útflutningstekjur sem tengjast þessum greinum og þessum geirum eru farnar að vaxa verulega.

Ég nefndi það í ræðu minni í gær að þegar frumkvöðlar á Vestfjörðum seldu íslenskt hugvit fyrir hátt í 200 milljarða kr. sagði stofnandinn að í dag væri líklega hvergi betra að vera með nýsköpunarfyrirtæki en einmitt hér á landi. Ég verð bara að segja að í þessari yfirlýsingu kristallast það samfélag sem við höfum stefnt að því að byggja upp með þessum auknu stuðningsgreiðslum, með því að efla samkeppnissjóðina, með því að laga skattumhverfið, með því að koma á fót stuðningssjóðum eins og t.d. fjárfestingarsjóðunum Kríu, Lóu og öðrum slíkum. Með þessu höfum við sýnt í verki viljann til að standa með fólki sem vill láta til sín taka og hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd allt frá því að þær eru á rannsóknarstigi yfir í að þær komast á tækniþróunarstig og úr þeim verða hugmyndir að fyrirtækjum sem þurfa fjármagn á meðan látið reyna á markaðsmöguleika hugmyndarinnar. Við höfum á undanförnum tveimur til þremur árum séð hvert fyrirtækið á eftir öðru vaxa í þessu nýja umhverfi, þessum nýja jarðvegi sem við höfum skapað með auknum stuðningi ríkisins. Þetta er góð fjárfesting til framtíðar.

Það er sérstaklega ánægjulegt að samhliða þessum aukna stuðningi ríkisins er að losna um fjármagn annars staðar í hagkerfinu vegna þess að lífeyrissjóðir eru farnir að fjárfesta í þessum geira langt umfram það sem áður tíðkaðist og þannig hefur aðgengi að fjármagni fyrir þá sem eru að koma á fót nýjum fyrirtækjum á þessu sviði stórbatnað.

Af öðrum stórum útgjaldamálum má nefna málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks. Þar er áætlað að framlögin á næsta ári verði um 15,3 milljarðar en um er að ræða 7 milljarða hækkun á raunvirði milli ára.

Undanfarin ár höfum við veitt ríflega hvata til orkuskipta með skattaívilnunum fyrir ýmis rafknúin farartæki. Fyrir vikið erum við meðal fremstu þjóða heims í rafbílavæðingu. Slíkum stuðningi verður haldið áfram á nýju ári en í fjármálaáætlun síðasta vor var ákveðið að færa stuðninginn af tekjuhliðinni yfir á útgjaldahliðina. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður þannig gert kleift að útfæra stuðninginn með hnitmiðaðri hætti þannig að áframhaldandi góður árangur náist í málaflokknum. Um 7,5 milljarðar kr. renna í Orkusjóð á nýju ári í þessum tilgangi.

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda munu aukast um 2,4 milljarða milli ára og 1,3 milljarða aukning í rekstrarframlögum rennur til eflingar háskólastigsins, m.a. til að auka samkeppnishæfni í alþjóðlegum samanburði. Þá á að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi á framhaldsskólastigi, eftir allt saman fjárfestingar til framtíðar.

Undirbúningur vegna heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu heldur áfram á árinu 2024. Stutt verður við innlenda framleiðslu á korni og kaup björgunarskipa fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu verða styrkt. Helmingshækkun verður á stuðningi við einkarekna fjölmiðla á milli ára og framlög til varnarmála eru aukin, m.a. til að standa að sameiginlegum tímabundnum verkefnum í Úkraínu.

Gert er ráð fyrir að vaxtagjöld nemi um 111 milljörðum kr. Greidd vaxtagjöld eru þó umtalsvert minni. Ég ætla aðeins að staldra við umræðu um vaxtagjöld ríkissjóðs að gefnu tilefni. Það er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvað það kostar ríkissjóð að skulda. Í þessu sambandi ætla ég að byrja á því að nefna að fyrir ekki mörgum árum síðan tókum við ákvörðun um það hér á Alþingi að nota alþjóðlega reikningsskilastaðla til þess að sýna fullt gagnsæi í opinberum fjármálum. Það innifelur m.a. það að við reiknum til vaxtagjalda þá vexti sem eru að safnast upp vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga. Við gerum ráð fyrir því að á næsta ári þá sé sú fjárhæð, einungis vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga, reiknuð stærð í kringum 20 milljarða eða rétt um 18 milljarða. Þannig að þegar við skoðum þessa tölu, 111 milljarða kr. í vaxtagjöld í fjárlagafrumvarpinu, þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að á bak við þá tölu eru ýmsar reiknaðar stærðir og verðbætur sem ekki koma til gjalda á næsta ári. Greidd vaxtagjöld á næsta ári eru umtalsvert lægri eða 58,8 milljarðar, ekki 111. Heildartalan innifelur þannig m.a. reiknuð gjöld sem ekki koma til greiðslu á árinu.

Ég vil halda því til haga að við höfum sýnt varfærni og það er skynsamlegt og það eykur gagnsæi um opinber fjármál að draga þessar tölur fram. En þetta þarf að hafa í huga þegar við erum að bera saman vaxtagjöld milli Íslands og annarra ríkja sem hafa ekkert fyrir því að velta fyrir sér reiknuðum vöxtum af loforðum um lífeyrisgreiðslur til framtíðar.

Gjaldfærðir vextir lækka á milli ára miðað við núverandi áætlun. En auðvitað er það aðalatriðið í þessu máli og það er ástæðan fyrir því að ég hef talað hér fyrir fjármálareglum, skuldareglu, fyrir því að við legðum áherslu á að halda skuldunum lágum. Ég hef verið að vekja athygli á því hversu miklu betur stödd við erum í skuldahlutföllum heldur en á horfðist fyrir stuttu síðan. Ástæðan fyrir öllu þessu er sú að við þurfum að hafa augun á skuldahlutföllum og við þurfum til lengri tíma litið að halda skuldum á Íslandi lágum til þess að geta brugðist við krefjandi efnahagslegum aðstæðum eins og þeim sem við höfum upplifað á undanförnum tveimur áratugum ítrekað og m.a. vegna þess að markaðurinn fyrir útgáfu íslenskra skuldabréfa er takmarkaður.

Okkur hefur sem sagt gengið vel að halda aftur af skuldahlutföllum. Við óttuðumst að skuldahlutföll ríkissjóðs færu yfir 50% af landsframleiðslu en þau eru rétt um 30% í dag eða 31%. Þegar fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 var lögð fram gerðum við ráð fyrir því að skuldahlutfallið í ár og á næsta ári yrði um 50%. Við trúum því að með áframhaldandi bata í afkomu ríkissjóðs þá verði hlutfallið komið innan við 31% í árslok 2024, sem sagt um 20 prósentustigum lægra á næsta ári en við höfðum verið að gera ráð fyrir fyrir stuttu síðan.

Á tekjuhliðinni eru tekjustofnar ríkissjóðs mjög að styrkjast og verða enn sterkir á næsta ári þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að þeir lækki sem hlutfall af landsframleiðslu frá yfirstandandi ári. Ráðstafanir á tekjuhlið frumvarpsins hafa þau meginmarkmið annars vegar að draga úr spennu í hagkerfinu og hins vegar að styrkja enn frekar tekjugrundvöllinn. Ein veigamesta breytingin í þeim efnum felst í næsta skrefi í nýju heildarkerfi gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Eins og við höfum oft bent á þá hafa tekjur ríkissjóðs verið að rýrna nokkuð á þessu sviði undanfarinn áratug og þar koma til kannski fyrst og fremst tveir þættir. Það er þá annars vegar einfaldlega það að ökutæki eru í dag miklu sparneytnari heldur en áður var og eftir því sem ökutækin verða sparneytnari þá koma þau sjaldnar við á bensínstöðinni. Það þýðir að lægri tekjur skila sér í ríkissjóð vegna eldsneytisskattanna. Hins vegar er það vegna þess að við höfum byggt hér upp skattkerfi og gjaldakerfi vegna innflutnings á bifreiðum sem hvetur sérstaklega til þess að velja þær bifreiðar umfram aðrar sem eru sparneytnari og menga þar af leiðandi minna og svo höfum við verið með viðbótarívilnanir fyrir umhverfisvæn ökutæki, sérstaklega rafmagnsbíla. Þetta hefur leitt til þess að við höfum náð mjög miklum árangri í orkuskiptunum og okkur hefur tekist að fá miklu hagkvæmari bílaflota í landið. Það er stórmál í samhengi við umhverfismálin.

En hin hlið þess máls er að tekjurnar gefa eftir og með fjölgun ferðamanna og fjölgun landsmanna þá fara kröfurnar til okkar um að tryggja öruggt og skilvirkt samgöngukerfi mjög vaxandi. Eftir því sem samgöngukerfið okkar stækkar þá vex sömuleiðis þörfin fyrir viðhald á vegakerfinu og eftir því sem ferðamönnum fjölgar í landinu og okkur Íslendingum fjölgar eru einfaldlega fleiri á ferðinni og það kallar síðan aftur á öflugri vetrarþjónustu allt árið um kring. Allir þessir þættir gera þess vegna kröfu um að þær tekjur sem sérstaklega stafa af umferðinni taki að nýju við sér. Við getum gert það án þess að fórna hvötunum til orkuskiptanna og höfum svo sem þegar stigið ákveðin skref. Um síðustu áramót, svo dæmi sé tekið, tókum við upp 5% lágmarksvörugjald á rafmagnsbifreiðar og við höfum verið að draga úr endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna innflutnings og nú, eins og ég hef hér rakið, höfum við fært stuðninginn af tekjuhliðinni yfir á gjaldahliðina.

Í vetur eru einkum tvö frumvörp sem ég hyggst kynna fyrir þinginu sem hafa tengingu við þessar breytingar. Við stefnum að því að innleiða nýtt, einfaldara og sanngjarnara kerfi þar sem greiðslur eru í auknum mæli tengdar notkun. Á árinu 2024 verður horft til raf- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið mjög takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins. Gjaldtöku verður þó hagað með þeim hætti að eftir sem áður verður umtalsvert hagkvæmara að eiga slíka bíla og reka heldur en bensín- eða dísilbíla.

Í heimsfaraldrinum var tekin ákvörðun um það hér í þinginu að fella niður gistináttaskattinn tímabundið og sú tímabundna niðurfelling rennur sitt skeið um næstu áramót. Að óbreyttu er því gert ráð fyrir að gistináttaskatturinn taki aftur gildi um áramótin og það er okkar stefna að hann verði þá einnig lagður á skemmtiferðaskipin. Það hefur staðið yfir vinna, m.a. með hagaðilum, til að fara heildstætt yfir gjaldaumhverfi ferðaþjónustunnar og það kann að hafa einhver áhrif á útfærslu okkar í þessu efni hvaða niðurstaða fæst í þeirri vinnu.

Verðmætagjald sjókvíaeldis verður hækkað. Slík tillaga hefur áður komið fram á þinginu og náði ekki fram að ganga, m.a. vegna þess fyrirvara sem var á málinu, en tillagan verður aftur flutt og gengur út á að verðmætagjaldið hækki úr 3,5% í 5% af markaðsverði afurða.

Krónutölugjöld munu uppfærast um 3,5% um næstu áramót og rýrna þannig að verðgildi en fyrir ári síðan þá var ákveðið að þau skyldu á árinu 2023 fylgja verðlagshækkunum. Með því að krónutölugjöld fylgja ekki verðlagi má segja að gjöld þessi séu um 3 milljörðum lægri en ef þau hefðu fylgt verðlaginu.

Þá er fyrirhugað að hækka álagningarprósentu tekjuskatts lögaðila tímabundið í eitt ár, úr 20% í 21%. Sú hækkun mun ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af skattinum árið 2024 heldur koma til framkvæmda við álagningu lögaðila 2025 vegna rekstrarársins 2024.

Tekjuáhrif helstu skattbreytinga á ríkissjóð nema alls um 23,3 milljörðum á árinu 2024.

Loks má nefna að sú breyting á tekjuskatti sem tekin var upp í áföngum á árunum 2020–2022 hefur ótvírætt sannað gildi sitt. Kerfið stuðlað að bættum kaupmætti heimilanna, ekki síst þeirra sem eru með lægstar tekjur. Ég kom inn á þetta hér rétt áðan að það var veruleg breyting á tekjuskattskerfinu okkar þegar við tókum ákvörðun um að fjárhæðarmörkin í kerfinu og persónuafslátturinn myndi fylgja verðlagi að viðbættu því sem við metum framleiðniaukningu, um 1%. Í ársbyrjun er þannig gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörkin hækka um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða 7.314 kr. minna í skatt í janúar 2024 en hann gerði í desember 2023.

Virðulegi forseti. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru en um nánari umfjöllun einstakra efnisliða vísa ég í greinargerð frumvarpsins. Ég tók eftir því að ekki tókst samkomulag um fyrirkomulag umræðunnar að þessu sinni og ég ætla að segja fyrir mitt leyti, og ég held að ég tali fyrir hönd margra ráðherra, að mér finnst það vera ákveðin synd. En auðvitað verður það að vera á forræði þingsins að ákveða tilhögun umræðunnar. Að mínu áliti hefur það reynst ágætlega að gera ráð fyrir sérstökum tíma fyrir fagráðherrana til að gera grein fyrir sínum málaflokkum og gefa þannig þinginu tækifæri til að eiga orðastað við þá um þær áherslur sem ráðherrarnir hafa beitt sér fyrir. Í þessu sambandi vil ég draga það sérstaklega fram að við erum að stunda hér rammafjárlagagerð og það sem felst í rammafjárlagagerð er að fagráðuneytum eru veittar töluvert miklar heimildir eða við skulum segja kannski frekar svigrúm til að ákveða hvernig sneiðinni er skipt innan viðkomandi málaflokka. Það þýðir að fagráðherrarnir eru sjálfir að verulegu leyti ábyrgir fyrir þeirri framstillingu. Þó að ég komi hér inn og beri málið inn í þingið þá eru það að sjálfsögðu fagráðherrarnir sjálfir sem hafa veruleg áhrif á það hvernig því fjármagni sem fellur undir hvert ráðuneyti er skipt milli málefnasviða og málaflokka. Þó ekki væri nema bara vegna þessarar ástæðu þætti mér eðlilegt að það væri efnt til sjálfstæðrar umræðu við ráðherrana.

Þetta tengist síðan öðru sem mér finnst hafa ekki tekist nógu vel varðandi framkvæmd fjárlaganna en það eru ársskýrslur ráðherra hér til þingsins sem er hin stóra eftirfylgni þingsins með framkvæmd fjárlaga hvers árs. Mér hefur þótt fara frekar lítið fyrir því uppgjöri sem skrifað er út í lögin að þingið geti kallað eftir á því hvernig framgangur þeirra mála sem boðuð höfðu verið í fjárlagafrumvarpinu hefur verið. Líkt og ég sagði áður þá er þetta á endanum alltaf mál fyrir þingið sjálft til að ákveða hvernig umræðunni er háttað og ekkert sem kemur í sjálfu sér í veg fyrir að fagráðherrar taki þátt í umræðunni og eflaust munu einhverjir þeirra blanda sér í umræðuna eftir því sem þeir kjósa. En þetta vildi ég hafa sagt hér í þessari umræðu málsins, mér finnst það skipta máli hvernig umræðan er skipulögð og hvernig hún fer fram.

Samandregið eru skilaboð mín hér í dag þau að okkar áætlanir til þessa hafa gengið vel upp og betur heldur en við leyfðum okkur að vona. Áætlun okkar í heimsfaraldrinum gekk út á það að hagkerfið myndi taka við sér að nýju og þá myndi hagur ríkissjóðs batna hratt og batinn í afkomu ríkissjóðs er, eins og ég hef hér rakið í dag, líklega sá mesti í okkar hagsögu á undanförnum árum. 190 milljarða bati á frumjöfnuði er bara söguleg breyting á afkomu ríkissjóðs. Skuldastaða okkar í dag er hófleg í alþjóðlegum samanburði og vel hægt að vinna sig í átt að enn lægri vaxtagjöldum og betri skuldahlutföllum. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin ákvað í sumar að flýta upptöku fjármálareglnanna, við boðuðum það. Hér í vetur hyggst ég kynna fyrir þinginu skýrslu sem veitir yfirsýn yfir þá þróun sem er að verða í öðrum ríkjum hvað snertir samsetningu fjármálareglna og þá erum við m.a. að ræða um reynsluna af fjármálareglum sem við höfum tiltölulega nýlega tekið upp og höfum þurft að taka úr sambandi tímabundið. Við erum líka að velta því fyrir okkur hvort aðrar leiðir, eins og t.d. útgjaldaregla, séu eitthvað sem ætti að koma til álita í okkar tilviki. Ég vonast til þess að sú skýrsla sem ég mun koma með inn í þingið verði tilefni til málefnalegrar umræðu um reynsluna af fjármálareglunum og að sömuleiðis fæðist þar eitthvert efni í umræðu um frekari úrbætur eða uppfærslu á þeim reglum sem við höfum í dag.

Ég kem hingað líka í dag til að halda því á lofti að verðbólga er tekin að lækka og það er í mínum huga augljóst af hinum gríðarmikla afkomubata ríkissjóðs í fyrra, í ár og aftur á næsta ári að ríkisfjármálin hafa stutt Seðlabankann í því verkefni að ná verðbólgunni niður. En það er auðvitað meginhlutverk Seðlabankans og er það sem er fyrst talið upp í 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands.

Við forgangsröðum í þessu fjárlagafrumvarpi í þágu stærstu hagsmunamála fólks í landinu þannig að kjörin geti haldið áfram að batna, heilbrigðisþjónustan áfram að styrkjast, að hér á landi verði byggðar íbúðir, byggt húsnæði í samræmi við þörf fólksins í landinu og sömuleiðis að ný tækifæri haldi áfram að spretta upp og skilyrði verði til þess að grípa þau og skapa nýtt, á nýsköpunarlandinu Íslandi.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, mælist ég til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og hv. fjárlaganefndar.