154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:50]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn að gera lítið úr 17 milljarða aðhaldi. Það er einfaldlega verið að benda hér á að það er verið að eyða jafn hárri ef ekki hærri tölu í umfram launahækkanir vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins upplifa ekki að velferðin sé að vinna með þeim. Einmitt vegna þess að við í Samfylkingunni erum meðvituð um meðferð fjármagns ríkisins þá erum við að benda á þá furðulegu staðreynd að það er verið að spara á einum stað til þess eins að fá þessar launahækkanir í fangið síðar. Það er verið að spara 17 milljarða, þar af nokkra milljarða í æðstu og efstu stjórnsýslulögunum til þess eins að fá allan vinnumarkaðinn, opinbera vinnumarkaðinn, í fangið. 30% af útgjöldum ríkissjóðs eru launagjöld. 60% af útgjöldum sveitarfélaga eru launagjöld. Ef ekki er haldið aftur af þessum hækkunum með því að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar og hins almenna launamanns þá fáum við þetta í fangið.

En það breytir því ekki að spurningunni hér hefur ekki verið svarað, nema þetta hafi einfaldlega verið staðfesting á því að það komi ekkert meira núna í aðdraganda kjarasamninga þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi í gærkvöldi verið að ræða um að það væri verið að vinna að tillögum til að koma með inn í kjarasamninga. Þannig að ég velti fyrir mér: Hvort er rétt? Er eitthvað á leiðinni eða ekki? Ég vek athygli á því í þessu samhengi af því að það er verið að tala um vilja einstakra stjórnmálaflokka til að útdeila réttindum.

Nú er mikið talað af þessari ríkisstjórn um vinnumarkaðsmódelið á Norðurlöndunum, mikið talað um skynsamlegar, hóflegar og hófsamar launahækkanir þar. Þar eru skattprósentur allt öðruvísi. Velferðarmódelið er allt öðruvísi. Barnabætur, allt öðruvísi. Og það er tómt mál að tala um skynsamlegar launahækkanir ef ekki er farið í að skoða þessi tæki. Þannig að ég ítreka spurningu mína: Þýðir þetta að hæstv. fjármálaráðherra taki ekki undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í gær um að það kæmu frekari kjarabætur núna fyrir jól?