154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa síðustu spurningu myndi ég segja að fólkið sem við ættum að hafa mestar áhyggjur af vegna verðbólgunnar í augnablikinu séu einmitt þeir sem eru með mjög íþyngjandi húsnæðisvexti. Það þarf að fylgjast mjög vel með því hvernig endurfjármögnun lána mun eiga sér stað þegar lán koma til endurskoðunar og með þessu er fylgst í Seðlabankanum og við eigum um það samtal í fjármálastöðugleikaráði. Þetta er hópur sem á mest undir því að verðbólgan komi áfram niður og vextir sömuleiðis. Það mun laga þá stöðu að nýju. Þó eru vaxtagjöld í dag sem hlutfall af ráðstöfunartekjum lægri heldur en þau hafa verið að jafnaði síðustu 20 ár, sem er dálítið merkileg staðreynd, en vaxtagjöldin eru mjög íþyngjandi fyrir marga, sérstaklega þá sem eru með óverðtryggð lán sem voru ekki venjan á þessu tímabili sem ég er að vísa til.

Þegar borið er saman skattkerfið á Íslandi við önnur lönd og við tökum með í reikninginn framlög til lífeyrissjóða er auðvitað mjög ósanngjarnt að gera það gagnvart þjóðum sem eru ekki með sjálfbærar lífeyrissjóðsskuldbindingar, þ.e. þjóðir sem eru ekki að leggja til hliðar vegna framtíðarinnar, eru með ófjármögnuð lífeyrisloforð inn í framtíðina, eru sum hver með gegnumstreymiskerfi, þau eru bara ekki samanburðarhæf við Ísland. Það er ekki hægt að taka skattkerfið okkar með öllum framlögum inn í lífeyrissjóði og bera það saman við lönd sem eru með ósjálfbært módel. Ég verð að segja í þessu samhengi að ég hef verulegar áhyggjur af mörgum Evrópuþjóðum sem eru með útistandandi ófjármögnuð loforð til heilu kynslóðanna af fólki sem nú er að nálgast starfslokaaldur og lýðfræðilega (Forseti hringir.) þróunin í viðkomandi löndum er öll öfug; (Forseti hringir.) það eru færri og færri á vinnumarkaði á móti þeim sem eru að fara á lífeyrisaldur og öll loforðin eru ófjármögnuð. (Forseti hringir.) Ég vil ekki bera okkur saman við slík ríki.