154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu hér og óska henni um leið til hamingju með þá 40 fundi sem þau héldu í sumar, svona álíka margir eins og við höldum í hverri viku í Sjálfstæðisflokknum þar sem við förum út á vettvang og ræðum við fólkið. Við nýttum sumarið í að hugsa um heilbrigðismál. Já, stjórnvöld nýttu einmitt tímann líka vel í heilbrigðismál. Hér rís nýr og fallegur spítali. Samningar við sérgreinalækna voru kláraðir, aukin framlög voru til hjúkrunarheimila og einkarekin heilsugæsla var opnuð núna á mánudaginn í Reykjanesbæ. Því spyr ég hvort Samfylkingin trúi því að hægt sé að gera betur með það fjármagn sem fer í heilbrigðismál og hvort það sé ekki hægt að nýta þá fjármuni betur til að fjármagna þær aðgerðir sem Samfylkingin hyggst leggja fram og/eða, af því að þetta er gríðarleg fjármögnun sem hefur bæst í heilbrigðismál undanfarið og meira þarf, á eingöngu að sækja það með auknum sköttum?