154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég verð því miður að hryggja hv. þingmanninn því að munurinn er ekki bara 11,82%, það er bara í tíð þessarar ríkisstjórnar. (SVS: Já.) Frá 1997, þegar lögin voru sett, er uppsafnaður munur 64,12% — 64,12%. Þetta er munurinn samtals í rauninni á launaþróun og verðbólguþróun. Það er mismunandi á milli ára hvort er, það eru örfá ár þar sem hækkunin er umfram bæði launa- og verðlagsþróun, en uppsafnaði munurinn þegar allt kemur til alls er þessi. Mér finnst dálítið áhugavert miðað við anda laganna þegar þau voru sett þarna, að það eigi að fylgja vísitölu neysluverðs, það er lágmarkið, en það eigi að fara eftir launaþróun eins og hún er, að vandinn við þetta, fólk ber það alla vega fyrir sig í stjórnsýslunni, er að það sé svo óskilgreint hvað launaþróun er, hvernig eigi að reikna hana út o.s.frv. En það er aldrei lagt í þá vinnu að leysa það vandamál og skilgreina betur, ekki í alla þessa áratugi sem þetta hefur verið vafamál. Það væri kannski ráðlegt fyrir fjárlaganefnd að kíkja aðeins betur á þetta, fá þessar tölur. Þetta eru tölur sem ég hef fengið í gegnum rannsóknarþjónustuna hérna á þingi og uppreiknað aðeins í kjölfarið þannig að kannski eru þetta ekki hárnákvæmar tölur hjá mér en eins nálægt því og ég kemst. Ég nota launavísitöluna sem er ekki alveg hárnákvæm heldur því að hún segir ýmsa aðra hluti, en miðað við rannsóknir stéttarfélaga og sveitarfélaga þá munar ekki mjög miklu á því hvernig launavísitalan er og hvernig laun opinberra starfsmanna og almenna markaðarins eru að þróast í heild sinni. Ég held að þetta sé mjög brýnt verkefni fjárlaganefndar að skoða, sérstaklega ofan í boðaðar breytingar félags- og vinnumarkaðsráðherra á almannatryggingakerfinu.