154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:16]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir seinna andsvarið. Það er svo sem litlu við þetta að bæta. Ég skil hvaðan þingmaðurinn kemur og hvert hann er að fara í þessu máli. Þetta snýr að því að það þarf þá að gera lagabreytingu, væntanlega, til þess að breyta þessu. En ég held að þetta sé hvort tveggja verkefni sem væri gott að taka inni í fjárlaganefndinni. Ég tek algerlega undir það. Það væri fróðlegt að fá þessar tölur upp á borðið þannig að þær séu staðfestar af þar til bærum stofnunum. Svo tek ég undir með honum að í þeirri heildarskoðun sem boðuð hefur verið á almannatryggingakerfinu þá hlýtur þessi umræða og þessi vinna að fara í gang þar inni sömuleiðis. Það er mjög eðlilegt að hún sé tekin þar. Ég tek því bara undir þetta, ég held að það væri mjög áhugavert að fá þessar tölur staðfestar, hver raunstaðan er, þannig að kærar þakkir fyrir þetta.