154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:18]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hans framsögu í dag. Við erum auðvitað að ræða stærsta mál hvers þings sem eru fjárlög og hvernig þeim fjármunum sem ríkið aflar í formi tekna er ráðstafað til Íslendinga. Það er voðalega auðvelt að týna sér í öllum þessum talnaflaumi sem dynur yfir og ég held að venjulegur Íslendingur átti sig illa á því hvað í þessu felst. Venjulegt fólk hlýtur að spyrja sig: Hvað þýðir þetta fyrir mig? Hvað þýðir það að hér sé verið að ræða um, eins og hv. þingmaður nefndi, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist — mér fannst ég heyra töluna 18% á væntanlega tveimur árum. Hv. þingmaður sagði líka að laun hefðu hækkað umfram verðlag og kaupmáttur aukist á ný. Maður veltir fyrir sér þegar maður er — jú, það getur vel verið að sé hægt að segja að laun hafi hækkað umfram verðlag en hvað fæ ég fyrir launin mín? Það hlýtur alltaf að vera spurningin. Hvað gerðist hinum megin? Það voru margar athyglisverðar ræður fluttar hér á þinginu í gær við stefnuræðu forsætisráðherra, m.a. kom það fram að ungir Íslendingar sem hafa tekið lán upp á 40 milljónir eru að upplifa það að afborgunin hefur farið úr 190.000 í 400.000 og þá spyr maður hver sé kaupmáttur þessa hóps. Hvað er verið að reyna að segja við fólk? Að það sé einhver kaupmáttur fólginn í því að lánin hafi hækkað um 200.000 á mánuði þegar laun hafa hugsanlega hækkað á þessu ári um 10%? Ef við tökum bara hjón með sitthvorar 700.000 kr. þá eru þau með 140.000 kr. aukalega í ráðstöfunartekjur sem fer allt og meira til í að borga af láninu.