154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:22]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum endalaust að glíma við sömu vandamálin. Það voru margir sem trúðu kosningaloforðunum um lágvaxtalandið Ísland og stukku á vagninn og sá hópur er að verða illa fyrir barðinu á þessu. Við erum mörg sem höfum upplifað ansi margar uppsveiflur og niðursveiflur á okkar starfsævi og þurft að takast á við verðbólgu, ja hátt að 100%. Maður veltir fyrir sér þeim undirstöðum sem efnahagslegt umhverfi okkar hvílir á. En nóg um það.

Mig langar, kannski bara af því að tíminn er takmarkaður í þessu — ég nefndi hér ræður í gær, m.a. ræðu hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi sameiningar framhaldsskóla sem eru fyrirhugaðar á Norðurlandi, Suðurnesjum og hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég gat ekki annað á ráðherrunum heyrt en að þetta væri að eiga sér stað vegna þess að það vantaði peninga og það hefur komið í ljós síðan að meira að segja ráðherrar Framsóknarflokksins eru farnir að rísa upp á afturfæturna og mótmæla þessum breytingum sem eru að eiga sér stað. Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann um að reifa þetta. Eru Framsóknarmenn sáttir við þessar sameiningar sem nú eru fyrirhugaðar? Það hafa verið mikil átök á Norðurlandi um þetta. Ég lét frá mér fara grein í Víkurfréttum í dag einmitt um sameiningar á Suðurnesjum sem vissulega eru líka umdeildar. Hvað finnst hv. þingmanni um að ekki sé verið að skaffa nægjanlegt fjármagn til að reka framhaldsskólana í landinu?