154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég sagði það hérna áðan að við erum rík þjóð. Já, hagvöxturinn skiptir tvímælalaust máli, auðvitað. Hann er frekar sjálfgefinn hjá ríkri þjóð. En hvernig farið er með þann arð er síðan allt annað mál, hvernig skiptingin á honum er. Það er alltaf stóra spurningin. Ef eitthvað er þá er það kannski stærsta áskorunin sem við höfum í þessum sal, að hugsa til þess hvað sé sanngjörn skipting á auðæfum landsins, hvað er í þjóðareign og hvað er ekki í þjóðareign, hvernig sumir auðgast endalaust af þjóðareign, aðrir ekki og hvernig stjórnvöld ákveða að skipta út dómurum hér og þar og eru ekki með augljósustu aðstoð í helstu málum þegar kemur að spillingu eða samráði o.s.frv. Saga okkar varðandi samkeppnisbrot er skrautleg, ekki til að hrósa sér af. (Forseti hringir.) Hagvöxturinn skiptir tvímælalaust máli, já, en það er skiptingin á þeim auði sem skiptir máli og þess vegna erum við með þessar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið, (Forseti hringir.) að þar sem auðurinn hefur verið að safnast saman þá deilum við honum aðeins betur.