154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið. Þetta er eitt af því sem ég hefði viljað koma inn á, ég hélt að ég hefði lengri tíma í ræðuna en það var víst bara hálftími. Lífeyriskerfið okkar hérna — eins og fjármálaráðherra var að tala um þá vorkenndi hann þjóðum sem væru með ófjármagnaðar lífeyrisgreiðslur, væru ekki með svona uppsöfnunarkerfi eins og hérna á Íslandi. Við eigum eftir að spyrja að leikslokum með það. Það er sífellt verið að reyna að hækka iðgjaldið til að koma til móts í rauninni við það að fyrri forsendur gengu ekki upp og uppsöfnunarlífeyriskerfið hérna á Íslandi hefur merkilega víðtæk áhrif, víðtækari áhrif heldur en við kannski myndum vilja. Lífeyriskerfið er byggt upp hérna á Íslandi sem tveggja stoða kerfi o.s.frv., með almannatryggingum og því sem þú safnar í lífeyrissjóð, en þriðja skyldan í rauninni fyrir fólk til að geta notfært sér lífeyristekjurnar er að standa eftir í lok vinnuævinnar með skuldlaust þak yfir höfuðið. Ef fólk er ekki með skuldlaust þak yfir höfuðið þá hefur það ekki efni á húsnæði með lífeyristekjum sínum. Séreignin, sem hjálp við það að eignast húsnæði, er tvímælalaust ágætisáætlun en hún er rosalega tekjuskipt. Það eru ekki allir sem geta nýtt sér þá leið, sérstaklega ekki þeir tekjulægri. Hvar endum við þar, í þeim hópi fólks sem nær ekki að safna sér skuldlausu þaki yfir höfuðið áður en það klárar ævivinnuna? Það fær lífeyri sem dugar ekki til framfærslu og eins og hv. þingmaður segir: Hver á þá þennan séreignarsparnað? Er ekki í rauninni bara verið að dæla honum inn í Seðlabankann með öllum stýrivöxtunum þegar allt kemur til alls og hefur áhrif í gegnum lánin okkar? Já, það þarf að tala miklu meira um lífeyrissjóðakerfið í efnahagslegu samhengi, það er víst.