154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns. Mér leið svolítið eins og ég byggi í öðru landi. Fyrir það fyrsta eru stýrivextir í landinu 9,25%. Þetta eru hæstu stýrivextir í vestrænu ríki. Ég veit að Rússland er með 12% stýrivexti, svo það liggi fyrir. Við erum ekki að tala um að allt sé í besta lagi í íslensku samfélagi. Húsnæðismarkaður er sennilega frosinn og vaxtabyrði fólks, millitekjufólks, er eftir því og miðast við 9,25% stýrivexti. Þeir eru 4% í Noregi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hún talaði mikið um velferð: Hvernig stendur á því að lífeyrir almannatrygginga í fjárlögunum er miðaður við verðbólguspá næsta árs? Það er ekki miðað við þróun verðlags og launa á yfirstandandi ári heldur spá fram í tímann. Allir rekstrarliðir fjárlagafrumvarpsins miðast við þróun verðlags og launa á yfirstandandi ári, ekki spána fram í tímann sem er 4,9%. Þá má reikna verðbólguna í ár 9,2% ef við tökum meðaltalið, 8,7% á milli ára. Árið er ekki búið. Það má miða við 8,7%, en viðmiðið er hins vegar 4,9% og þetta gengur gegn 62. gr. laga um almannatryggingar. Hvernig stendur á þessu? Hvernig ætlar flokkur sem telst til vinstri í samfélaginu, sósíalískur vinstri flokkur, að horfa framan í þjóðina, aldraða og öryrkja, og bjóða 4,9% hækkun á meðan allir aðrir liðir hækka a.m.k. um 8,7%?