154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú bara lagt áherslu á það að efnahagsbatinn skili sér í afkomubata hjá ríkissjóði og þannig styðji ríkissjóður við markmið peningastefnunnar auk þess sem við höfum verið að veita skjól fyrir viðkvæma hópa. Mig langar aðeins að koma hérna inn á vaxtamálin og áhrif þeirra á heimilin vegna þess að við höfum séð, t.d. bara í dag síðast frá Íslandsbanka, dæmi um það hvað fjármálafyrirtækin geta gert en Íslandsbanki sendir út til viðskiptavina sinna sem eru með óverðtryggð lán áminningu um að það er hægt að fá vaxtaþak hjá bankanum. Þeir sem nýta sér vaxtaþak upp á 7,5%, geta slegið verulega niður greiðslubyrði sína og þá bætist mismunurinn við aftast á lánið og þetta hefur þannig ákveðið ígildi annarra lánaforma. En sá sem nýtir sér þetta úrræði hjá Íslandsbanka getur þannig slegið niður, í ákveðnu dæmi sem stillt er upp, greiðslubyrði sína úr 325.000 kr. á mánuði í 230.000 með þessari einföldu breytingu á skilmálum lánsins sem eru smíðaðir inn í lánið sem sérstakt úrræði ef vextir hækka þetta mikið. Þetta er tímabundið ástand sem við getum náð stjórn á. Verðbólgan er að lækka og við eigum að halda áfram að beita ríkisfjármálunum til að veita skjól fyrir þá sem þurfa á að halda, (Forseti hringir.) bæta afkomuna með aðhaldsaðgerðum m.a. og þá munu hlutirnir rata aftur í rétta farið.