154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um skjól fyrir þá sem þurfa á að halda þá myndi ég líka vilja heyra hann vera skýran um það hverjir það eru, af því að mér sýnist, eins og ég hef nefnt hérna núna í nokkur skipti, að það sé verið að skilja millistéttina eftir. Það er verið að skilja barnafjölskyldur eftir, fyrstu kaupendur, fólkið sem er að taka þetta á sig. Þetta úrræði sem hæstv. fjármálaráðherra nefnir, gott og vel, fínt, þetta er samt plástur. Það sem út af stendur fer ofan á höfuðstólinn og þarna erum við komin með einhverja rammíslenska blöndu af óverðtryggðu og verðtryggðu með breytilegum vöxtum og föstum vöxtum. En við biðjum um meira en þessa plástra. Við viljum stöðugleika og þess vegna erum við líka að reyna að taka samtalið til lengri tíma með því að tala um hvað krónan gerir almenningi á Íslandi — ekki plástra.