154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tímalínu þess að ríkissjóður fór í halla, þá var hann orðinn ósjálfbær fyrir heimsfaraldur. Eins og ég nefndi hérna í gríni, þó að maður eigi kannski ekki hlæja að því, þá var kominn faraldur í fjárlög fjármálaráðherra löngu fyrir heimsfaraldur. Það er bara staðan. Er vaxtakostnaðurinn minni en hann var áður? Já. En er það rétta spurningin? Er ekki spurningin frekar: Er hann of mikill? Hefur hann áhrif á burði ríkisins til að hreyfa sig, til þess að fjárfesta í þjónustu og innviðum? Ég bendi bara á mjög fína umfjöllun Morgunblaðsins um þetta því ég held að allir sem reka heimili eða fyrirtæki skilji þetta. Það er svo sláandi hvað hlutfallið er hátt, hvað kostnaðurinn er mikill. Það er óábyrgt að ræða málin þannig, ég er ekki að ætla hv. þingmanni það, að ræða bara um skuldir vegna þess að skuldir eru ekkert sérstaklega háar í samanburði, en geta þess ekki hvað skuldirnar eru að kosta okkur.