154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í þróun mála í útlendingamálum sem hann nefndi undir lok ræðu sinnar. Bara svona til að hafa formála að spurningunni, þá held ég að það sé ljóst orðið og óumdeilt að þær lagabreytingar sem voru gerðar núna fyrr á þessu ári og hv. þingmaður studdi, hafa haft í för með sér gríðarlega aukinn kostnað fyrir kerfið. Annars vegar með því að gera það að verkum að það er búið að þyngja málsmeðferð einstaklinga sem vilja fá endurupptöku mála sinna vegna þess að það voru samþykkt ákveðin ákvæði sem kalla á mikil málaferli og mikið lögfræðiþvarg sem var óþarft áður, þá var hægt að afgreiða þessi mál hraðar. Nú er komið á daginn að það er þörf fyrir fleiri öryggisverði til að vinna við að setja fólk á götuna. Ég geri ráð fyrir að þeir séu á sæmilega háu kaupi við það þar sem það er væntanlega erfitt að fá fólk í þann starfa. Þannig atvinnuauglýsingar hafa verið að birtast, verið að auglýsa eftir nýjum öryggisvörðum til þess m.a. að vísa fólki út á götuna. Sérsveitin er að auglýsa og það eru síðan þessar fyrirætlanir um lokuð búsetuúrræði sem reyndar hafa ekki verið lagðar fram en mér heyrist hv. þingmaður styðja. Allt er þetta aukinn kostnaður en ekki minni kostnaður fyrir samfélagið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi afleiðinga af þessum lagabreytingum — það er ekki langt síðan ég stóð uppi í pontu og var að nota töluna 6 milljarðar sem fara í þennan málaflokk. Það eru ekki 6 milljarðar sem voru að fara í það að hjálpa fólki og þeir 15 milljarðar sem þetta er orðið að í dag (Forseti hringir.) fara ekki í það að hjálpa fólki, þeir fara í að framfylgja þessum lögum og koma fólki úr landi sem er mjög dýrt. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn þá á þeirri skoðun að það hafi verið skynsamlegt að gera þær breytingar sem voru gerðar hérna í mars.