154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið aftur. Jú, þetta er nefnilega þannig. Maður getur reitt á sér hárið. Eins og ég segi, ég safnaði nú skeggi til að skeggræða fjárlögin og ég gæti reitt af mér skeggið, þetta er svo vitlaust kerfi. Ég hef oft hugsað: Heimskur, heimskari, heimskastur. Hver á að fá gullverðlaun fyrir heimskuna að byggja upp svona kerfi? Látum það vera, eins og ég hef oft sagt, að einhverjum detti þetta í hug og geri þetta. En hvernig í ósköpunum getur svo hver aðilinn komið á eftir öðrum og viðhaldið kerfinu, ekki viðhaldið því til betri vegar heldur verri vegar með því að bæta inn í þetta stagbætta kerfi? Ég hef oft furðað mig á því. Við erum með verst settu öryrkjana. Þeir sem eru einir fá húsnæðisstuðning. Þegar barnið verður 18 ára eða tvítugt eru þær bætur teknar af. Það er sérstaka uppbótin. Síðan fer þetta fólk til Tryggingastofnunar og það er sagt: Þú mátt vinna fyrir 200.000 kr., en það er bara ekki rétt vegna þess að þú verður að vera á nákvæmlega réttum stað í þessu kerfi til þess að mega vinna fyrir 200.000 kr. Ég hef alltaf sagt og segi það enn þann dag í dag: Hættum þessu fíflalátum, tökum þetta allt í burtu, segjum bara við fólk: Þú færð þessa upphæð, farðu út að vinna og á meðan þú ert undir meðallaunum, segjum í þeirri vinnu sem þú ert í, þá skerðast þau ekki neitt. Þetta er bara mjög einfalt. Ég veit ekki hvað þetta kostar en ég er með útreikningana á skerðingum og það er komið í 70 milljarða sem ríkið er að spara sér með skerðingum í þessu kerfi. Það eykst alltaf jafnt og þétt vegna þess að þeir passa sig á því að hækka aldrei nema bara brotabrot og passa sig líka á því að minnka aldrei skerðingarnar. (Forseti hringir.) Það þarf bara að sópa þessu út, fá nýtt kerfi. En ég er hræddur um að það verði ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)