154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Nú erum við aftur saman komin á Alþingi til að tala um fjárlög. Það er von mín að frumvarpið í þetta sinn sé aðeins meira tilbúið en það var í fyrra þegar við fengum það til 1. umræðu, þar sem þegar við komum til 2. umræðu þurfti að breyta næstum öllum tölum, enda voru svörin við allri okkar gagnrýni í fyrstu umferð að þetta kæmi í annarri.

Þessi blessaða stóra bók sem inniheldur fjárlagafrumvarpið er ekki sú gagnsæjasta og auðveldasta til að fara í gegnum og því líka auðvelt að koma með athugasemdir sem kannski eiga ekkert við rök að styðjast vegna þess að það er ekki hægt að lesa út úr frumvarpinu hvað er í rauninni verið að gera. En ég ætla ekki að vera sakaður um málþóf með því að endurtaka allar þær athugasemdir sem ég gerði um framsetningu á þessum fjárlögum. Menn geta bara horft á sömu ræðu frá síðasta ári.

Nú er komið nýtt ár og kannski þá mikilvægt að byrja bara á því að fara yfir þau atriði sem vöktu athygli mína þegar ég var að lesa þetta. Það er að sjálfsögðu heilmikið nefnt af góðum markmiðum í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er svo spurning hvort við náum þessum markmiðum, (Gripið fram í: Mjög góð markmið.) spurning hvort það sé nóg fjármagn til að ná þessum markmiðum og allt þetta þurfum við að skoða. En við erum sennilega ekki með gögnin til þess núna.

Það fyrsta sem sló mig við að lesa í gegnum þessar 382 síður var það að á meðan 50.000 manns lifa á Íslandi við fátækt þá virðist ríkisstjórnin aðallega vera að auka álögur á hinn almenna borgara en leyfa hinum ríku að halda áfram að verða ríkari. Jú, það er bætt við 1% tekjuskatti á lögaðila, þó svo að mér heyrðist nú fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hér á undan vilja helst draga úr því, enda skelfilegt að þeir ríku þurfi að taka eitthvað á sig. En ég er viss um að þær forsendur sem hérna eru eiga eflaust eftir að breytast eitthvað í meðhöndlun bæði hv. fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég tók eftir því þegar ég las í gegnum fjárlögin að það á að fella niður stuðning til íslenskukennslu fyrir innflytjendur og þá ætla ég að vera mjög nákvæmur í skilgreiningunni á innflytjanda. Þarna er ekki verið að tala um hælisleitendur og ekki verið að tala um kvótaflóttafólk heldur hitt, u.þ.b. — ég heyrði einhverjar tölur, að fyrstu sex mánuði ársins hefðu rúmlega 5.000 einstaklingar af erlendu bergi brotnir flutt til Íslands. Við heyrum háværar raddir í samfélaginu og jafnvel hérna inni, jafnvel frá hæstv. forseta lýðveldisins, að við þurfum að vernda tungumálið. Við þurfum að leggja fjármagn í að vernda tungumálið. Það gerum við sérstaklega með því að hjálpa þessum innflytjendum að læra íslensku, bjóða kennsluna ókeypis að mínu mati, og gera fólki þannig kleift að nota tungumálið í stað þess að skera þetta niður. Því hef ég lagt fram, ásamt öðrum Pírötum, breytingartillögu um að ekki einungis halda þessu inni heldur virkilega leggja áherslu á íslenska móðurmálið og íslensku tunguna með því að efla til muna íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem aðrir hv. þingmenn hafa farið yfir heldur langaði mig að tala um málaflokk sem er alveg aftast í málaflokkunum, málaflokkur 35 eins og hann er kallaður, sem er alþjóðleg þróunarsamvinna. Þar er mikilla tíðinda að vænta og sennilega hafa höfundar fjárlaganna vonað að flestir væru búnir að gefast upp í yfirferð sinni um málaflokkana þegar þeir kæmu alla leið að 35. málaflokknum. En 24 milljónir manna til viðbótar munu búa við hungursneyð á næstu 12 mánuðum samkvæmt nýlegum upplýsingum frá matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þetta er að gerast af því að það er samdráttur í framlögum til þróunar- og neyðaraðstoðar víða um heim. Þessi samdráttur í þróunaraðstoð mun orsaka margra ára skref til baka þegar kemur að ástandinu í þessum löndum. Þetta skref til baka mun orsaka aukinn ungbarnadauða, fleiri farsóttir og fólksflótta frá þessum löndum á skala sem lætur ástandið í dag líta út fyrir að vera léttvægt. Þessi samdráttur í þróunaraðstoð kemur á sama tíma og þróunarlöndin finna enn frekar fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Þurrkar, óvenjuháir hitar í bland við hamfaraflóð og sterkari storma, allt er þetta að auka á þá neyð sem fólk sem þegar lifir við sára fátækt upplifir.

Ísland er eitt ríkasta land í heimi og við erum því miður innan við hálfdrættingar á við nágrannalöndin þegar kemur að því að veita fjármagn til þróunaraðstoðar. Undanfarin ár höfum við unnið þétt saman hér á þingi við að koma þeirri upphæð sem við leggjum í þróunaraðstoð upp í 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er helmingurinn af þeim 0,7% sem framfarastofnun Evrópu, OECD, leggur til að lögð séu til þróunaraðstoðar. Í núverandi þingsályktun um þróunaraðstoð fyrir árin 2023–2024 er 0,35% það markmið sem sett var fyrir þetta ár. Í drögum að þingsályktun um þróunaraðstoð fyrir árin 2024–2028 er einnig sett markmiðið 0,35% fyrir þetta ár og svo meira að segja hækkun upp fyrir það, en auðvitað ekki fyrr en eftir að nýtt kjörtímabil hefst. Í fjármálaáætlun sem samþykkt var í vor er 0,35% það viðmið sem sett er. Það er því sorglegt að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi að sú upphæð sem lögð er til þróunaraðstoðar er dregin saman um 6,4% frá síðasta ári á meðan verg þjóðarframleiðsla, sem prósentan er miðuð við, mun aukast um yfir 10%. Þetta þýðir bara eitt: Við munum fara mörg ár aftur í tímann þegar kemur að hlutfalli vergrar þjóðarframleiðslu sem fer til þróunaraðstoðar á sama tíma og neyðin og þörfin er að aukast og aukast. Sem ríkasta land í heimi þurfum við að gera betur þegar kemur að þessum málaflokki og ég skora eindregið á hv. nefndarmenn í fjárlaganefnd að eiga djúpt samtal við hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um hvernig við getum staðið við okkar skuldbindingar gagnvart fólki í þróunarlöndum.