154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Hér hefur ýmislegt verið látið falla í umræðu um fjárlög ríkisins og margt fyrirsjáanlegt. Hæstv. fjármálaráðherra reið á vaðið í morgun með ítarlegri yfirferð yfir hin nýframlögðu fjárlög næsta árs og talsmenn annarra þingflokka tóku svo við keflinu hver á fætur öðrum. Það er ljóst af því sem sagt hefur verið að verðbólgan, svo þrálát sem hún er, bitnar ekki á bjartsýni fjármálaráðherra þó að hún bíti alla aðra. Vinstri flokkar vilja hækka skatta og Viðreisn heldur áfram að tala fyrir ábyrgð, aðhaldi og bættri forgangsröðun, svo ég vísi í ræðu talsmanns Viðreisnar, hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur hér fyrr í dag.

Í sem stystu máli er hægt að kalla þessa fjárlagaumræðu endurtekið efni. Það skortir býsna mikið á að brugðist hafi verið við varnaðarorðum frá afgreiðslu síðustu fjárlaga, varnaðarorðum fjölmargra aðila sem tjáðu sig þá um fjárlögin; aðilar vinnumarkaðarins og aðrir sérfræðingar sem vöruðu við því að það væri verið að vanmeta kraft verðbólgunnar, Seðlabankinn, sem sagði beint út að ríkisstjórnin væri að gera vinnu hans erfiðari við að ná niður verðbólgunni og svona mætti áfram telja. Nú stöndum við hér með tóm veski eftir nýjar endurteknar stýrivaxtahækkanir og ríkisstjórnin bregst við með efni sem hún veit vel að er ólíklegt til að virka. Það er enn þá svimandi há verðbólga sem Seðlabankinn einn getur einfaldlega ekki tekist á við og, það sem mögulega eru brýnni skilaboð héðan úr þingsal, það geta heimili landsins ekki heldur gert ein.

Ég minni á þegar við erum að hefja þessa umræðu að í fyrra þegar fjárlög voru lögð fram var staðan eiginlega sú að það var ekki hægt að taka efnislega umræðu í 1. umræðu því að ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, svöruðu því einu til, hvort sem um var að ræða spurningar, borin fram gagnrýni eða hugleiðingar um þau fjárlög sem voru til umræðu, að það væri ekkert að marka þetta plagg, það ætti eftir að breytast svo mikið í meðförum þingsins. „Lagast“ var reyndar orðalagið sem var notað. Og jú, breytingin var sú að hallinn fór úr 89 milljörðum kr. í framlögðum fjárlögum um 120 milljarða kr. í meðförum stjórnarmeirihlutans.

Það sem mig langar til að gera hér er í grófum dráttum tvennt; mig langar annars vegar að ræða það sem tengist tekjuhlið fjárlaganna, þ.e. skattamál, og hins vegar það sem tengist útgjaldahliðinni, vaxtagjöld. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 1.349 milljarðar kr. á næsta ári, 30% af vergri landsframleiðslu, og af þessari fjárhæð eru skatttekjur og tryggingagjöld áætluð rétt ríflega 1.200 milljarðar. Það er fjárhæðin sem um ræðir þegar við tölum um skatta og tryggingagjöld. Þetta eru u.þ.b. 90% af heildartekjum ríkis. Samsetning tekna ríkisins af sköttum og tryggingagjaldi á næsta ári samkvæmt þessu er í grófum dráttum sú að stærsti flokkurinn er skattar á vöru og þjónustu, áætlaðar um 550 milljarða kr. Vaskurinn er auðvitað yfirgnæfandi þar, 416 milljarðar. Síðan koma aðrir neysluskattar, 46 milljarðar. Við erum að tala um gjöld á ökutæki og eldsneyti, 63 milljarðar, og áfengis- og tóbaksgjöld 32 milljarðar. Síðan koma sterkt inn í öðru sæti skattar á tekjur og hagnað, 457 milljarðar, sem skiptist þannig að einstaklingar greiða 277 milljarða í tekjuskatt, lögaðilar 126 milljarða og síðan er fjármagnstekjuskatturinn 54 milljarðar.

Þriðji stærsti tekjuflokkur ríkissjóðs, gjaldaflokkur heimila og fyrirtækja, er síðan tryggingagjöldin sem eru áætluð 141 milljarður. Og svo koma einhverjir smærri skattaflokkar sem sjá um restina, sirka 50 milljarðar. Þetta er hellingur. Þetta eru ofboðslega miklir peningar — 1.200 milljarðar sem velta frá fyrirtækjum og heimilum landsins á árinu inn í ríkissjóð. Það er fínt. Við erum og viljum vera velferðarsamfélag og það er sameiginlegur skilningur okkar á því að það kostar og fólk mótmælir hér almennt ekki skattheimtu, hefur ekki gert það. En við erum engu að síður einfaldlega að nálgast þolmörk fjölmargra heimila og fyrirtækja. Ég held að með skynsemina að leiðarljósi þá sjáum við að við munum ekki skattleggja okkur frekar. Við munum ekki skattleggja íslenska þjóð frekar út úr þeim efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir núna. Stjórnvöld verða að taka boltann og finna aðrar leiðir, t.d. með langþráðu og nauðsynlegu aðhaldi. Ég myndi vilja sjá fjárlaganefnd núna skoða í alvöru lækkandi útgjöld, skoða það að færa skattheimtuna í ríkari mæli frá þorra almennings og yfir til stórútgerðarinnar og annarra sem nýta náttúruauðlindir landsins. Fyrst þarf að verðmeta þau not og það er merkileg mótstaða við þær aðgerðir. Ég myndi vilja sjá mengandi atvinnustarfsemi vera gert að greiða meira. Ég myndi vilja sjá þennan skatt aukinn til að lækka á hinum endanum. Með öðrum orðum; fara frekar í tilfærslur í skattkerfinu, taka upp græna skatta, horfa til þess að þeir sem menga borgi og hætta svo að búa til skattaívilnanir fyrir þá sem ekki þurfa á því að halda. Ég kem aðeins að því á eftir.

Þetta eru þau verkefni sem væri óskandi að fjárlaganefnd meiri hlutans, af því að reynslan hefur sýnt að það er meiri hlutinn sem ræður för eða með öðrum orðum, meiri hlutinn bíður eftir skilaboðum úr ráðuneytum og knýr svo sínar breytingar í gegn. En þetta myndi ég vilja sjá vera leiðarstefið í vinnunni frekar en eingöngu það, og helst bara ekki, að hækka útgjöld í meðförum þingsins, auka enn frekar á hallann.

Ég er sem sagt að segja að almenn skattlagning er ekki svarið. Það er samfélagssátt um að við borgum háa skatta. Við borgum þá af laununum okkar, við borgum þá af innkaupum og við borgum þá yfir höfuð af öllu því sem við gerum frá degi til dags. En það sem truflar sífellt fleiri er sú vaxandi tilfinning annars vegar að skattarnir séu ekki nýttir nægilega vel til þess að standa undir þeirri grunnþjónustu sem fólk og heimili þurfa á að halda, og þar nefni ég sérstaklega heilbrigðisþjónustu og velferðarmál og bæti svo reyndar menntamálunum við, ekki síst eftir brýningu menntamálaráðherra hér í umræðum í gærkvöldi. Við þurfum einfaldlega að bera meiri virðingu fyrir skattpeninga almennings. Hins vegar er það sú tilfinning sem mér finnst ég verða vör við, að fólk orðar sífellt oftar það óréttlæti sem felst í því hve millistéttinni er gert að bera þyngstu byrðarnar. Þetta verður sífellt skýrara í samtölum við fólk. Kannski er það nátengt þeirri staðreynd að þrátt fyrir þessa miklu skattbyrði eru biðlistar eftir margs konar mikilvægri velferðar- og heilbrigðisþjónustu að aukast, ekki að minnka. Kannski er það það sem gerir það að verkum að fólk er raunverulega farið að rýna í hvernig skattpíningarnar eru nýttir. Staðreyndin er sú að alveg sama hversu þægilegt og fyrirhafnarlítið það er að auka þennan tekjustofn, þ.e. tekjuskatt á einstaklinga, þá gengur það eitt sér ekki lengur. Það þarf fleira að koma til.

Síðan langar mig að nefna að þessi sturlaða vaxtabyrði fyrirtækja og heimila, sem þurfa að sætta sig við krónuhagkerfið, er sannarlega samsvarandi viðbótarskattlagning þó að það sé ekki á það bætandi. Munurinn er sá annars vegar að þessi byrði, vaxtakostnaðarbyrðin, er enn þá fjær því að leggjast jafnt á heimili og fyrirtæki og leggst eiginlega frekar á þau sem síst skyldi. Svo er munurinn líka sá að þessar tekjur skila sér ekki í ríkissjóð heldur til fjármagnseigendanna. Þetta er fjármagnsflutningur frá heimilum til fjármagnseigenda.

Og vaxtagjöld, þau bíta auðvitað víða en það er full ástæða til að hafa mestar áhyggjur af þeim sem eru með íþyngjandi húsnæðisvexti. Hér í umræðunum fyrr í dag, ég held reyndar að það hafi verið í andsvörum, kom hæstv. fjármálaráðherra inn á það að Íslandsbanki, held ég að hann hafi nefnt, hafi kynnt til sögunnar úrræði fyrir fólk sem er að sligast undan afborgunum, verðbólguskotnum afborgunum og vöxtum, og það væri að flytja byrðina aftar á lánstímann, fara eiginlega tímabundið úr óverðtryggðu lánunum yfir í verðtryggðu. Þetta á að vera fullkomið neyðarúrræði og það þarf að fylgja sögunni í hvert einasta skipti sem þetta úrræði er borið á borð fyrir lántakanda, að það er verið að lengja í ólinni. Það er verið að bæta á höfuðstólinn, það er verið að gera greiðslubyrðina þyngri þegar upp er staðið. Ég er ekki að gera lítið úr því að þetta úrræði getur bjargað einhverjum sem ella myndu ekki klára sig á þessum tímum, en þetta þarf að vera síðasta úrræðið.

Ég ætla ekki að gera neinum það hér inni að gera lítið úr þessum vanda fólks sem við blasir en ég saknaði þess að sjá ekki meiri áherslu á undirliggjandi vanda frekar en skyndilausnir, þótt þær geti verið mikilvægar líka. Þær eru það bara ekki einar og sér. Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gerði það m.a. að umtalsefni í umræðu um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra hér í þingsal í gærkvöldi hversu ósanngjarnt þetta tvöfalda peningahagkerfi okkar er þar sem stærri fyrirtæki eiga þess kost að gera upp rekstur sinn í erlendri mynt og taka lán á hagstæðari kjörum í erlendri mynt en önnur fyrirtæki og heimili landsins sem eru föst í viðjum krónuhagkerfisins og þeirri vaxtaáþján sem því fylgir. Þessi orð formanns Viðreisnar kölluðu á viðbrögð álitsgjafa RÚV í kjölfarið. Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fyrrum pólitískur ráðgjafi fjármálaráðherra hafði það að segja um þetta óréttlæti, sem bitnar bæði á heimilum landsins og fjölmörgum fyrirtækjum, að það væri holur hljómur í orðum formanns Viðreisnar af því að hún hefði greitt atkvæði með því hér á árum áður, ég held í alvöru að það séu um 20 ár síðan, að fyrirtæki fengju að gera upp í erlendri mynt. Formaður Viðreisnar mun áfram, líkt og við hin í Viðreisn, tala fyrir því að sem flestir hér á landi njóti frelsis til að fá að nota erlenda mynt; stór fyrirtæki, lítil fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, ríkissjóður og ekki síst heimili landsins. Þetta snýst um almannahagsmuni. En þetta litla dæmi sýnir kannski fyrst og fremst að varnargarðarnir liggja víða og svo reyndar líka það hversu lítt merkilegir þeir geta verið.

En forseti, það eru sem sagt ekki bara heimili landsins og fyrirtæki, þau sem eru í krónuhagkerfinu, sem eru að sligast undan vaxtagjöldunum. Vaxtagjöld ríkisins eru sérkapítuli. Þau eru áætluð 111 milljarðar á næsta ári. Auðvitað er óraunhæft að núlla þessa upphæð út. Það væri líka ósanngjarnt af mér að halda því fram hér að ríkissjóður sé nú skuldsettur mjög mikið úr hófi fram. En fórnarkostnaðurinn við krónuna, þessi vaxtamunur sem íslensk heimili, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og ríkissjóður greiða, hann bítur. 111 milljarðar gætu verið miklu lægri fjárhæð sem nemur tugum milljarða. Og hugsið ykkur hvað væri hægt að gera við þá fjárhæð inni í almannaþjónustunni.

Svo mætti reyndar halda að þessi gjaldaliður, vaxtagjöld ríkisins, sé eitthvert feimnismál. Morgunblaðið, sem er þekkt fyrir stuðning sinn við ríkisstjórnina, birti þannig í gær súlurit yfir helstu gjaldaliði fjárlaganna og þar vakti athygli mína hvernig skautað var yfir þann fjórða stærsta, nefnilega vaxtagjöldin. Sú súla var einfaldlega ekki í súluritinu. Af leiðara blaðsins í dag má svo ráða að við gerð súluritsins hafi verið notast við samantekt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins þar sem þennan lið vantaði, svo ég vísi í leiðara í dag. Blaðið bætti sem betur fer úr þessari handvömm í dag og birti fína frétt um hækkandi vaxtagjöld ríkissjóðs.

Framsetning skiptir máli og auðvitað er fullkomlega óábyrgt að vera að fara í einhvern feluleik hér um þessi mál. Við verðum þvert á móti að ræða vaxtavanda ríkisstjórnarinnar opinskátt. Vextir sem hlutfall af landsframleiðslu hér á landi eru með því hæsta sem þekkist í hinum vestræna heimi þó svo að við séum mun neðar á listanum þegar kemur að skuldahlutfallinu. Þetta er fjórði stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Á árunum eftir hrun þótti það fréttnæmt þegar vaxtaliðurinn var, að ég tel, í þriðja sæti, og ég man ekki hvort gjaldaliðirnir voru nákvæmlega eins þá. Það var fréttnæmt en við virðumst vera orðin ónæm fyrir þessu í dag. Þetta er óþægilega nálægt fjárhæðinni sem ríkisstjórnin ver til sjúkrahúsþjónustu á komandi ári. Og auðvitað kemur þetta niður á okkur öllum, allt frá því að þetta kemur niður á getu ríkissjóðs, ríkisstjórnarinnar til að sinna hlutverki sínu, innviðauppbyggingu, fjármagna þjónustu, og þetta kemur niður á öllum þeim sem eru að fjármagna sig frá degi til dags.

Á sama tíma eru svo útgjöld A-hluta ríkisfjármála aukin um rúmlega 127 milljarða kr. á milli ára. Þetta er upphæð sem setur auðvitað aðhaldsvæntingar hæstv. fjármálaráðherra upp á 17 milljarða í mjög skýrt samhengi en er að sama skapi í takt við vinnulag ríkisstjórnarinnar sem hefur aukið útgjöld sín um 9% að meðaltali hvert einasta ár sem hún hefur setið í stóli. Og aftur, þegar rætt er um útgjöld ríkissjóðs, þegar rætt er um skattlagningu, skatttekjur, þá þarf að setja það í samhengi við það hvað við erum að fá fyrir það. Það sem við erum að fá fyrir það eru vaxandi biðlistar á óþægilega mörgum sviðum velferðarþjónustunnar og grunnþjónustunnar. Það er staðreynd. Það eru vonbrigði, herra forseti, að horfa upp á þetta forystuleysi í efnahagsmálum. En svo má líka spyrja sig hvort forystusauðirnir séu of margir.

Mig langar aðeins, af því að ég nefndi það áðan, að segja að eitt af því sem mætti gera, og ég held að það væru hreinlega mikilvæg skilaboð frá stjórnvöldum, er að hætta að verja peningum í skattaívilnanir til aðila sem ekki þurfa á því að halda. Mig langar að nefna tvö dæmi; annars vegar þær fréttir sem berast um gríðarlega arðsemi bílaleiganna, sem hafa fengið ríflega milljarð í styrk til að skipta út bílum við að taka upp rafmagnsbíla, og síðan úthlutanir Orkusjóðs sem virðast ekki endilega lenda þar sem gagnið yrði mest. Það skiptir máli hvernig fjármununum er varið þó svo að verið sé að takast á við gríðarlega mikilvæg verkefni eins og loftslagsaðgerðir.

Það hefur verið rakið hér vel í dag að áskoranir í ríkisfjármálunum eru miklar. Ríkissjóður veltir gríðarlegum fjármunum. Skattbyrði á heimili og fyrirtæki er mjög mikil en mikið af þeirri grunnþjónustu sem samfélagið þarf á að halda, og aftur ber þar hæst heilbrigðis- og velferðarmál, er illa fjármögnuð.

Menntamálin, aftur, svo ég vitni í skilaboð ráðherra málaflokksins frá í gær, eru í þeim flokki líka. Ég nota orðin illa fjármögnuð frekar en vanfjármögnuð. Mér finnst vera blæbrigðamunur á því og ég er þeirrar skoðunar að með skýrri sýn, auknu gegnsæi og samstilltu átaki megi nýta fjármagnið betur. Við getum ekki leyft okkur að fara ekki í þá vinnu. Ég verð að segja að 1% aðhaldskrafa þvert á allt, án tillits til hvað er í gangi og án þess að það komi skilaboð um vinnuna, finnst mér ekki vera besta leiðin til þess, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Ég minntist á það í upphafi hvernig stjórnarliðar, jafnt ráðherrar sem óbreyttir þingmenn, nálguðust 1. umræðu um fjárlög 2023 hér fyrir ári síðan, þar sem öllum spurningum og gagnrýni var mætti á þann veg að þetta væri svo til marklaust plagg. Síðan fólst vinna meiri hlutans í að auka á hallann á ríkissjóði um ríflega 30 milljarða. Núna erum við að leggja af stað í þessa vinnu með fjárlög sem bera í sér halla upp á 46 milljarða. Sú upphæð er reyndar háð því að á næsta ári verði lokið við sölu á helmingshlut í Íslandsbanka sem enn er í eigu ríkisins, tæplega 50 milljarðar á næsta ári. Ég verð að segja að það fer einfaldlega eftir því við hvaða fulltrúa ríkisstjórnarinnar er rætt hvort búast megi við því að af þeirri sölu verði. En þetta verður nokkuð augljóslega eitt af stóru málunum af því að auðvitað munar um þennan pening.

Ég ætla að óska fjárlaganefnd góðs gengis við vinnuna nú að lokinni 1. umræðu. Þau gerast varla mikilvægari verkefnin en að sigla báruna vel á milli þess að takast á við verðbólguskrattann og himinháan vaxtakostnað með því að gæta aðhalds í meðferð þeirra fjármuna sem renna í ríkissjóð í gegnum skattgreiðslur einstaklinga og lögaðila og svo þess að standa þannig að uppbyggingu og rekstri mikilvægra samfélagsinnviða og mikilvægrar samfélagsþjónustu að sómi sé að.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að áhersla á hægri hagstjórn og vinstri velferð er gott veganesti inn í þá vinnu.