154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Allt hárrétt sem hv. þingmaður segir. Þetta eykur öryggistilfinningu lögreglumanna en ekkert endilega öryggi þeirra. Það er það sem rannsóknir, t.d. í Bretlandi, sýna, að öryggi lögreglumanna versnar jafnvel þrátt fyrir að þeim líði öruggari, að slysum fjölgar o.s.frv. Þetta eru hliðaráhrif af því að skafa ýmislegt annað inn að beini líka og sinna ekki þeirri velferðarþjónustu, því félagslega öryggisneti sem gerir það að verkum að aðstæður breytast ekki og óöryggið almennt séð vex og fólk grípur þá til ódýru og hættulegu lausnanna. Það er vandamál. Þess vegna kosta gæðin. Það þurfum við að hugsa um líka því að þegar valmöguleikinn er: „Nei, þið fáið engan pening, finnið út úr því án þess að þið fáið pening,“ þá fáum við slæmu lausnirnar. Það er einfaldlega þannig.

Við þurfum að þora að hugsa: „Já, heyrðu, ef þetta kostar aðeins meira þá fáum við samt miklu betri árangur.“ Það eru þannig lausnir sem við ættum að velja þær sem ná mestum árangri. Að sjálfsögðu ekki fyrir einhverjar stjarnfræðilegar upphæðir, við reynum að vera raunhæf hvað það varðar. Þetta er grundvöllur þess sem ég er að reyna að vekja athygli á í sambandi við kostnað við lögbundin verkefni, að við vitum ekki hver hann er. Við vitum ekki hver viðmiðin í gæðum þjónustunnar eru. Þar af leiðandi þegar kemur fjárlagafrumvarp hingað inn og segir okkur: „Það er þetta mikill peningur sem á að setja í sálfræðiþjónustu o.s.frv.“ og ég reyni að spyrja: „Hversu mikið dekkar þetta þau þjónustuviðmið sem við viljum sinna?“ „Ekki hugmynd.“ Hvernig á ég þá að geta samþykkt: Heyrðu, já, þá á þetta að uppfylla lögin sem við settum hérna um daginn. Ég get það ekki. Þetta er kjarni vandans. Það er allt skorið inn að beini. Lausnirnar verða þá slæmar og öryggi versnar og þá fáum við ekki frelsi.