154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:34]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við. Agi í ríkisfjármálum er af hinu góða. Samkeppni ætti líka að geta verið af hinu góða en á Íslandi er miklu frekar yfirleitt um fákeppni að ræða heldur en samkeppni. Samkeppni á fjármálamarkaði, í bönkunum, er ekkert að virka gagnvart neytendum. Það eru bara nokkurn veginn sömu kjörin hjá þeim öllum. Númer eitt, tvö og þrjú þarf að verja heimili landsins fyrir afleiðingum verðbólgunnar og við gerum það ekki með því að næstum því þrefalda vaxtakostnað heimilanna fyrir hvern einasta mánuð. Við gerum það ekki þannig. Það er alveg ljóst að það er ekki að verja heimilin, það er að fara gegn þeim og með grófum hætti.

Val um lánsform; fólk á ekki að þurfa að vera sérfræðingar til að geta keypt sér íbúðarhúsnæði og geta skoðað lánsform. Það er staðreynd að verðtryggð lán, sem ég vil banna, eru flókin afleiðulán sem eiga ekki að vera í boði fyrir neytendur. Þau eiga hins vegar að vera á milli fagfjárfesta og milli fagfjárfesta og ríkis. Hér hefur þessu hins vegar verið snúið við. Ef ég myndi fara í Kauphöllina og biðja um að fá lán þar til að kaupa hlutabréf á nákvæmlega sömu forsendum og verðtryggð lán eru þá verður sagt nei við mig því að ég er ekki fagfjárfestir. Við erum að bjóða fólki upp á þessi lán í stórum stíl. Og ekki bara bjóða upp á þau, við erum að neyða fólk inn í þau núna, við erum að reka fólk þangað af því að þau veita stundarlausn. En þau hafa skelfilegar afleiðingar. Það að þingmenn almennt skuli ekki átta sig á hversu hryllilega eitraður kokteill þessi lán eru sem hér eru ráðandi og verið er að reka fólk í er bara virkilega alvarlegur hlutur.