154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:38]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einmitt að lesa sama fjárlagafrumvarp og þingmaðurinn. Fjórtán milljarðar eru að fara núna í viðbót inn í heilbrigðiskerfið okkar og það er alveg rétt sem hér kemur fram, það er m.a. til þess að reisa spítala; stærsta framkvæmd sem við höfum staðið í að ég held bara í sögunni og verður ánægjulegt að sjá hann rísa, umtalsvert betri umgjörð undir þessa veigamiklu starfsemi.

Ég hjó eftir því í málflutningi þingmannsins að það virðist þá vera kominn einhugur um það, ef ég skil hann rétt, að einkarekstur geti verið skynsamlegur í heilbrigðiskerfinu. Þá er kannski mín seinni spurning varðandi andsvarið: Á það við heilsugæslur úti á landi til að mynda? Er Samfylkingin fylgjandi því að auka einkarekstur heilbrigðisstofnana, heilsugæsla um landið?