154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þrátt fyrir að þingmenn meiri hlutans og jafnvel ráðherrar hafi komið hér upp hver á fætur öðrum og sagt okkur að það sé ekkert að marka þetta plagg og félagasamtök úti í bæ séu skömmuð fyrir að vekja athygli á því sem þar stendur af því að það er ekki alveg eins og hlutirnir eiga að vera, þá ætla ég samt að benda á þá hluti í þessu plaggi sem ég tel að segi okkur sitthvað um stefnu og athafnir þessarar ríkisstjórnar.

Hv. þm. Kristrún Frostadóttir talaði um það í ræðu sinni í gær að þessi niðurskurður og stefna sem birtist þarna í fjárlögum skorti pólitík. Hún talaði um að það væri engin pólitík í þessu. Það er í rauninni verið að skera niður út í loftið. Það er bara verið að skera niður til að skera niður, ekki til að forgangsraða til framtíðar eða eitthvað slíkt. Mér fannst nú svolítið skemmtilegt hvernig hún komst að orði þegar hún sagði að það væri engin pólitík í því að reka stjórnsýsluna af því að það eru allir sammála um að það sé skynsamlegt að gera það.

Þrátt fyrir að það skorti pólitíska sýn í þetta skjal, í þetta frumvarp þá sýnir það samt svolítið pólitík þessarar ríkisstjórnar sem er að mörgu leyti mjög reaktíf. Hún er reaktíf á eigin framkvæmdir. Hvað á ég við með því? Þessi ríkisstjórn virðist taka ákvarðanir, og kannski orsakast þetta að einhverju leyti af þeim ólíku pólum sem mynda þessa ríkisstjórn og þeim málamiðlunum sem þurfa að eiga sér stað, en það er svolítið eins og það sé eitthvað sem gerist og annað ekki og afleiðingarnar eru einhver áhrif á fjárlögin, á útgjöld og tekjur ríkisins. En þar birtast líka áherslurnar og við sjáum það ágætlega í þessum fjárlögum. Þarna er það sem ég ætla að leyfa mér að kalla „random“ niðurskurð og flatar aðhaldskröfur út í loftið, af því við þurfum svo mikið að spara en sums staðar eru aukin útgjöld og það er ekki vegna þess að við höfum ákveðið að já, þetta sé það sem við viljum verja peningunum okkar í, heldur vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákvarðanir og í krafti meiri hluta síns á þingi samþykkt löggjöf, örugglega fleiri en eina, þótt ein sé mér sérstaklega hugleikin, sem stórauka útgjöld ríkisins í eitthvað sem ég held að okkur langi ekkert til þess að vera að eyða peningunum okkar í.

Þessi útgjöld eru þannig afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar þó að það sé engin stefna á bak við þessa fjármálaáætlun og þetta fjárlagafrumvarp, eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir vakti athygli á með skemmtilegum hætti. Þessi útgjöld eru afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar sem er í ofanálag byggð á ranghugmyndum, og nú ætla ég bara að taka það dæmi sem mér er þekktast: Síðastliðið vor, nánar tiltekið þann 15. mars, samþykkti meiri hlutinn hér á þingi breytingar á lögum um útlendinga. Það mátti skilja á máli þeirra sem studdu það frumvarp og það mál að það þyrfti að ráðast í þessar aðgerðir vegna þess að við værum að eyða allt of miklum peningum í útlendingamál. Það skýtur skökku við vegna þess að þessar breytingar gera ekkert annað en að auka útgjöld ríkissjóðs til útlendingamála. Ekki til þess að hjálpa fólki, alls ekki, þvert á móti fer þorri þess kostnaðar í það sem við getum kallað hæliskerfið, bara svo við tölum mannamál, fer í það að reyna að halda fólki frá landinu, koma því í burtu af landinu og senda skilaboð um að það sé ekki velkomið. Það eru útgjöldin, það er það sem þessir peningar fara í. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir töluna 15 milljarðar, 15,3 milljarðar segir hann að fari í útlendingamál að þessu sinni. Þetta eru svakalegir peningar. Það er ekkert langt síðan, mér finnst eins og það séu hreinlega nokkrar mínútur síðan, ég stóð hérna uppi í pontu talandi um 6 milljarða og mér blöskraði. Þetta eru aukin útgjöld og þau munu stóraukast á næstunni. Það stendur reyndar í fjárlögunum að það sé verið að tala um tímabundið aukið framlag en það hefur líka verið þannig síðustu tíu árin með þessari stefnu ríkisstjórnarinnar, alltaf tímabundið aukið framlag til þess að reyna að koma fólki í burtu af þessu landi, fólki sem við þurfum á að halda.

Þessar breytingar á lögum um útlendinga sem voru gerðar í vor snerust hins vegar ekkert um sparnað. Þær snerust ekkert um það að skera niður í ríkisútgjöldum, að hætta að eyða peningum í uppihald á fólki sem á ekki rétt á að vera hérna eða annað slíkt, eins og mátti skilja á ræðum þingmanna meiri hlutans og jafnvel ráðherra, heldur snerust þessar breytingar fyrst og fremst um að senda skilaboð; það átti að reyna að fá fólk til að hætta að koma hingað. Vandinn við þetta er þessi: Þorri þeirra útlendinga sem koma hingað og leita verndar eru flóttamenn, eru raunverulegir flóttamenn. Það er ekki bara mín skoðun og það er meira að segja ekki bara skoðun mannúðarsamtaka eða annarra, þótt líklega myndu fleiri falla undir þá skilgreiningu heldur en þá sem ríkisstjórnin byggir á og stjórnvöld byggja á, því að samkvæmt þeim lögum sem við höfum hér og við vinnum eftir hér, sem þó eru ansi þröng, þá voru 92 af 3.591 umsækjanda í efnismeðferð sem voru ekki taldir eiga rétt á stöðu flóttamanns eða mannúðarleyfi, 92 af 3.591. Þetta er ekki stór hluti. Þetta eru þeir einstaklingar sem fá efnismeðferð umsóknar sinnar hér á landi.

Alvarlegustu breytingarnar á þeim lögum sem voru gerðar núna í vor voru þær að það var ákveðið að hætta að veita fólki þjónustu sem er búið að fá synjun og neitar að fara af landinu. Í upphafi voru þetta 20–30 manns af 4.000–4.500. Þetta kostar milljarða á milljarða ofan, þessi stefna. Það kostar sannarlega sitt að halda fólki uppi sem má ekki vinna, má ekki sjá um sig sjálft, er ekki heimilt að bjarga sér sjálft. Það sannarlega kostar sitt en það kostar langtum minna en það kostar meðalmanninn að draga fram lífið vegna þess að þetta er algjör lágmarksþjónusta. Einhver benti mér á það hversu skakkt það er að tala um þjónustu, þetta er bara lögfræðilegt hugtak. Við erum að tala um algjör lágmarksbjargráð. Við erum að tala um að fólk hafi þak yfir höfuðið og smá hafragraut til að borða á morgnana. Það er ekki verið að tala um neinar steikur, humra eða vín. Þrátt fyrir að fólk sé í erfiðri stöðu og fái synjun hérna er það lítill hluti sem fer ekki. Ég endurtek: Lítill hluti, mjög lítill hluti. Langflestir sem sækja um eitthvað og eiga ekki rétt á því hugsa með sér: Ok, ég á kannski aðra möguleika einhvers staðar annars staðar — og fara þá og leita þeirra möguleika. Það gerum við líka flest sjálf.

Það er lítill hluti sem telur á sér brotið, sem telur sig engu að síður, þrátt fyrir að stjórnvöld séu þeim ósammála, mögulega ranglega, ekki geta farið heim og gera það ekki. Reyndar er fólk í langflestum tilvikum þegar svo ber undir flutt gegn vilja sínum, bara í járnum. Það er handtekið og flutt upp í flugvél og flutt. Ég veit ekki hversu margir starfsmenn stoðdeildar ríkislögreglustjóra fylgja hverjum einstaklingi, ég man það ekki og held að það sé reyndar misjafnt eftir aðstæðum, en það er það sem er oftast gert. Þetta er gert ef það er hægt að flytja fólk til einhverra Evrópuríkja og þetta er hægt að gera þegar þarf að flytja fólk til ríkja sem Ísland er með endurviðtökusamninga við og annað slíkt, sem eru nokkur. Svo eru ákveðin ríki þar sem eru engir slíkir endurviðtökusamningar og ríkin taka ekki við fólki í slíkum nauðungarflutningum. Þetta eru ekkert rosalega mörg lönd, þetta eru ekkert rosalega margir einstaklingar og sannarlega ekki stórt hlutfall af þeim sem hingað leita. Hins vegar er einn einstaklingur í þessari stöðu sannarlega of mikið, ég vek athygli á því. Þetta hljómar alltaf eins og mótsögn, við erum að tala um að þetta séu svo fáir einstaklingar en þeir eru samt of margir vegna þess að einn er einum of mikið.

Það sem er að gerast núna er að þessum einstaklingum var hent á götuna. Þau voru svipt skítuga herberginu þar sem þau bjuggu með þremur öðrum af alls konar þjóðerni og öllum kynjum, fólk með alls konar trú og í alls konar aðstæðum. Þau voru svipt 8.000 kr. sem þau fengu á viku og möguleikanum á að fá tönn dregna úr sér ef hún skemmist. Þetta er þjónustan sem fólk var svipt. Því var hent út á götu, út á guð og gaddinn og sváfu — og sofa, vonandi þó enginn enn þá — í hraungjótum. Þeir einstaklingar sem eru ekki hérna úti á Austurvelli eða í hraungjótum þurfa ekki að vera þar vegna aðkomu hjálparsamtaka og einstaklinga sem hafa gripið inn í fyrir hönd stjórnvalda til að halda fólki lifandi hérna, svo við séum ekki með það deyjandi úti á götu. Þetta var markmiðið en þessi breyting var byggð á því að það væri svo hræðilega vont að vera að eyða öllum þessum peningum í að halda uppi fólki sem á að fara heim til sín þannig að við tökum þjónustuna af þeim, til þess að þau fari bara heim til sín. En hvað gerist? Þau gera það ekki.

Það kom út skýrsla um þessi mál í Danmörku, að ég held árið 2021, en við erum einmitt að herma eftir Danmörku með svona leiðir. Danir eru reyndar komnir skrefinu lengra en hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji stíga það skref með sérstöku ævifangelsi fyrir þessa einstaklinga. Það sem gerist þarna er að fólki er hent á götuna og það fer ekki. Einhver fóru af landinu en það er ekkert sem bendir til þess að þau hafi farið heim til sín. Einstaklingar sem telja sig ekki geta farið heim til sín reyna að komast eitthvert annað. Þeir lenda sennilega á götunni einhvers staðar annars staðar, í öðru Evrópuríki. Þessi lög eru því byggð á röngum forsendum. Þau eru byggð á ranghugmyndum. En það sem þessi skýrsla sýndi sem kom út í Danmörku, af því að nú eru Danir líka með þetta kerfi, var að mjög lítill hluti fólks fer, enda eru afleiðingarnar mjög skýrar. Í Danmörku eru búðir, svokölluð búsetuúrræði með takmörkunum eins og við viljum kalla það þótt þetta sé bara lífstíðarfangelsi fyrir saklaust fólk þar sum þeirra eru opin að hluta en önnur ekki. Þarna alast börn upp. Þarna eru skólar. Þarna getur fólk meira að segja unnið við hitt og þetta. Það hafa myndast svona hliðarsamfélög af því að einstaklingar fara ekki. Þetta er náttúrlega rándýrt. Það er rándýrt að halda úti þessum úrræðum og það er enn dýrara að halda úti úrræðum þar sem fólk á að vera lokað inni, eins og sumir vilja hafa það, vegna þess að öryggisgæsla og annað er eitt það dýrasta sem við rekum. Þannig að þetta snýst alls ekki um sparnað, bara alls ekki neitt. Þetta eru ekki margir einstaklingar í stóru myndinni en sannarlega allt of margir, eins og ég hef tæpt á.

Þær hugmyndir sem eru hérna uppi eru enn þá dýrari en fyrirkomulagið sem var við lýði, sem var þannig að fólk var með þessa lágmarksgrunnaðstoð þangað til eitthvað, þangað til það fann einhver úrræði, önnur ríki. Jafnvel Ungverjaland og Pólland, sem eru þekkt fyrir að vera með einna hræðilegustu stefnuna gagnvart útlendingum í Evrópu og þótt víðar væri leitað, veita fólki kost á því að fá einhvers konar dvalarleyfi, sækja um einhvers konar dvalarleyfi eftir ólögmæta dvöl, sannarlega að 10–12 árum liðnum en það er meira en við erum að gera. Það er meira en við erum að bjóða. Við höfum sannarlega skítamixað þessi mál hingað til. Hingað til hafa einstaklingar verið hérna jafnvel í tíu ár. Ég veit um dæmi þess að fólk hafi verið hér í tíu ár og algerlega fallið milli þilja. Það er réttindalaust og getur ekki unnið, getur ekki gert neitt og lifir bara í algerri eymd. Tíu ár af lífi þess eru farin út um gluggann þegar íslensk stjórnvöld vakna allt í einu og sjá að kannski þurfa þau að finna einhverja aðra lausn en þá að ganga út frá því að fólk geti bara drifið sig heim, sem það getur ekki.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að þetta er áskorun fyrir stjórnvöld og þetta er vandamál og við erum ekkert fyrst til að glíma við það vandamál að geta ekki framfylgt ákvörðunum sem stjórnvöld taka. Það eru hins vegar til aðrar leiðir en þær leiðir sem við erum að reyna hér og við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þeim efnum til að glíma við það. Hverju er ég í rauninni að reyna að koma á framfæri hérna? Ég er að reyna að útskýra að þetta er rándýrt fyrir íslenska ríkið. Þetta hefur engin áhrif á þorra þeirra sem hingað leita. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta muni eitthvað fækka fólki sem kemur hingað vegna þess að flestir sem koma hingað eru að flýja stríð í Úkraínu, eru að flýja aðstæður í Venesúela, eru að flýja ákveðnar aðstæður og geta komið hingað, þetta eru einstaklingar sem geta komið hingað án vegabréfsáritunar. Það er ekkert sem sendir þessum einstaklingum nein skilaboð. Þetta er mjög lítill hópur sem mun ekki koma til Íslands og það verður þá bara vegna þess að við erum svo vond við útlendinga. En það sem verra er: Skilaboðin sem þetta sendir eru eingöngu þau — og þau fara til alls heimsins og til allra sem búa á Íslandi líka — að við séum vond við útlendinga. Við viljum ekki útlendinga, við viljum ekki fólk og sérstaklega ekki fólk af ákveðnum uppruna. Þetta eru skilaboðin sem þetta sendir, að við séum reiðubúin að henda fólki út á guð og gaddinn ef það drífur sig ekki heim.

Hvort sem fólk óttast að verða flutt eða ekki þá eru þetta skilaboðin og þessi skilaboð eru grafalvarleg. Það sem ríkisstjórnin er að gera þarna er að skapa hættu í samfélagi okkar, hættu sem við eigum að vera að berjast gegn. Við eigum að vera að snúa þessari þróun við. Það er ekki verið að spara neina peninga með þessu. Það er ekkert við þetta sem bætir samfélag okkar með neinum hætti, hvorki fjárhagslega né með öðrum hætti. Okkur vantar fólk. Ég held að það hafi margkomið fram að Ísland vantar fólk og þorri þeirra einstaklinga sem koma hingað og sækja um vernd fá hana, oft mjög fljótt þegar þau koma frá ríkjum sem eru talin í hættu, eins og Úkraínu. Íslensk stjórnvöld eiga að mörgu leyti hrós skilið fyrir það hvernig tekið var, og er, á móti Úkraínufólki en þetta er fólk sem fer mjög fljótt út í lífið og við sjáum að mörg þeirra eru nú þegar að byggja upp líf sitt og annað.

Sannarlega erum við að glíma við áskoranir varðandi innviði og annað á Íslandi en við vitum vel að það hefur ekkert með þennan hóp að gera. Þessi hópur er brotabrot þar. Það eru þúsundir einstaklinga sem flytja til Íslands árlega frá Evrópuríkjum án þess að spyrja kóng eða prest. Það eru þúsundir Íslendinga sem flytja til baka árlega. Það eru milljónir ferðamanna sem koma hingað á ári. Þetta eru byrðarnar á innviðunum. Við erum að glíma við það og við eigum að vera fókusa á það. Hvað ef við tækjum þessa 15 milljarða sem við erum að setja í einhver skilaboð sem gera ekkert annað en að auka hatur og pólaríseringu í samfélaginu, gera ekkert til að fækka því fólki sem kemur hingað, gera ekkert til að minnka útgjöld ríkissjóðs til framtíðar — hvað ef við tækjum þessa 15 milljarða, hættum þessari vitleysu og gerðum þetta eins og við vorum að gera þetta? Þetta var þolanlegt kerfi að mörgu leyti, þótt það sé óþolandi að þurfa að segja það og það sé alltaf verið að ganga nær og nær þolmörkunum hjá manni. En hvað ef við tækjum þessa 15 milljarða og notuðum þá í innviðauppbyggingu? Hvað við tækjum eitthvað af þessum 15 milljörðum og notuðum í það sem er verið að skera niður í þessu fjárlagafrumvarpi; að kenna fólki íslensku, tryggja aðgang fólks að íslenskukennslu? Það þarf að taka það út, 240 milljónir ef ég man rétt, rétt tala er í breytingartillögu okkar Pírata þar sem við erum að leggja til að íslenskukennsla verði ekki skorin niður.

Þessi stefna er svo arfavitlaus á allan hátt. Okkur vantar fólk. Fólk er ekki kostnaður og það er engin hámarksstærð á samfélögum. Fjölmenning skapar áskoranir, hún gerir það, en fjölmenning er engin ógn nema við búum ógnina til. Og við erum að búa ógnina til með þessum fjandsamlegu skilaboðum. En það eru ekki útlendingarnir sem verða reiðir við það að við séum að senda þeim vond skilaboð, nei, við erum að ýta undir hægri öfgaöfl. Við erum að gefa þeim rödd, gefa þeim „platform“ sem hatast við þessa hópa, sem hafa haft vit á því að þegja hingað til. Það er það sem við erum að gera og það er ógnin sem við erum að skapa með þessari stefnu. Við sjáum það hreinlega hjá lögreglunni sjálfri, lögreglan sjálf er að tala um það. Hún segir að það séu engin merki um einhver íslömsk öfga-eitthvað, hryðjuverka-eitthvað, engin merki. Það eru hins vegar mörg merki um mikla hættu sem steðjar að samfélagi okkar og þetta er ein helsta ógnin, vegna öfga hægri afla. Þið sjáið hvernig er verið að hóta hinsegin fólki á Íslandi í dag. Og ég get sagt ykkur að þið vitið ekki helminginn vegna þess að það er ekki alltaf gagn að því að opinbera það sem er í gangi, því að maður vill ekki veita því meiri athygli. En þetta er skelfileg staða og það er búið að vera algjörlega ógeðslegt að fylgjast með hvernig hefur verið talað um hinsegin fólk í fjölmiðlum á síðustu dögum. Og þetta er engin tilviljun, þetta er ekkert óvart. Þetta er vegna þess að það er verið að gefa þessum öflum byr undir báða vængi.

Það er þarna sem áskorunin liggur þegar samfélag okkar verður fjölmenningarsamfélag og það sem við þurfum að gera er að standa vörð um samfélag okkar eins og við höfum byggt það upp. Hvernig gerum við það? Við gerum það ekki með því að senda hatursfull skilaboð og eyða milljörðum í það í þokkabót. Við gerum það með því að tryggja tungumálið okkar. Hvað er það sem gerir okkur að þjóð? Hvað er það sem gerir Ísland að Íslandi og er það sem við erum svo hrædd við að missa? Það er tungumálið. Það er sagan okkar. Það er náttúran. Það eru mannréttindin. Það er réttarríkið sem við höfum byggt hérna upp, friðurinn, dýrðin. Þetta er það sem við eigum að vera að passa upp á en við erum að gera öfugt, við erum að vinna gegn eigin menningu með því sem við erum að gera. Við erum að skemma hana innan frá. Það eru ekkert útlendingar sem eru að eyðileggja þetta samfélag heldur erum við að gera það sjálf af ótta og það er óþarfi.

Ég ætlaði nú alls ekkert að koma hérna og halda reiðilestur um útlendingamál þótt margar ræður mínar fari gjarnan í þá átt, heldur vildi ég fyrst og fremst í þessu samhengi benda á það að útgjaldaaukningin sem við sjáum í þessu fjárlagafrumvarpi er ekki vegna þess að við erum að reyna að hjálpa mörgum. Hún er ekki vegna þess að við erum svo góð við flóttamenn, það er öfugt, það er vegna þess að við erum að fara í öfuga átt. Hér er nóg af störfum, hér er nóg pláss og okkur vantar fólk.

Þá ætla ég aðeins að vinda mér í aðra sálma. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á í ræðu sinni í gær þá er ekki nóg að það séu mörg störf hér því að það eru engin störf á dauðri jörð. Og nú erum við komin út í enn aðra sálma. Hvað er það sem tryggir samfélag okkar? Við getum alveg gleymt öllu ef við erum ekki með réttindin okkar en við getum enn frekar öllu gleymt ef það er ekki hægt að lifa á jörðinni. Það sem er mjög sláandi að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi, og ég er kannski að einhverju leyti að endurtaka það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði í ræðu sinni í gær en ég tel það bara aldrei of oft sagt sem skiptir máli, er að það eina sem þessi ríkisstjórn er að gera eða þykist vera að gera í loftslagsmálum eru þessi orkuskipti. Í þessu fjárlagafrumvarpi er hins vegar, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á í nokkuð nákvæmu máli, í rauninni verið að falsa upplýsingar með því að færa tölur úr einum lið yfir í annan til að láta líta út fyrir að við séum að auka fjárframlög til loftslagsmála. Og það er sannarlega til loftslagsmála í merkingunni rafmagnsbílar handa ríkum. En gefum þeim kredit, það er verið að setja mikla peninga í það að sem flest geti keypt sér Teslu þótt það nái vitanlega ekki til þeirra sem mest þurfa á að halda heldur til þeirra sem væru alveg til í að eiga Teslu til viðbótar við bensínbílinn, því miður, en það er svo sem önnur og lengri umræða. Það er sem sagt ekki verið að auka framlög hvað þetta varðar, og reyndar sýndi hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fram á að það er verið að minnka framlög með því að færa tölur sem voru áður í útgjaldaliðnum. Hvernig getur það verið í útgjaldaliðnum? Jú, með því að fella niður ákveðin gjöld, það er veittur afsláttur — fyrirgefið í tekjuliðnum, og það er fært yfir í útgjaldaliðinn þannig að t.d. afsláttur sem við vorum að veita sem kostaði X, það erum við núna bara að veita í framlögum. Það er bara verið að færa til, það er ekki verið að auka framlögin neitt og að því er virðist er verið að minnka þau.

Það sem meira er, og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á það líka, sem sýnir metnaðarleysi og stefnuleysi í þessu plaggi og í því sem ríkisstjórnin er að gera, þá er ekkert búið að reikna út, það er ekkert búið að meta. Það er ekkert verið að meta hvaða áhrif þessar aðgerðir, eða ekki-aðgerðir, munu hafa á markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Við erum með einhver markmið um X minnkun á losun, sem að því er virðist er að fara í öfuga átt og mun engan veginn nást á næstu árum, sennilega vegna þess að það er ekkert plan, það er engin áætlun. Líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á þá er eðlilegt til þess að ná slíkum markmiðum, þú ert með töluleg markmið, að það sé gerð úttekt á því hverju sinni þegar það er farið í einhverjar aðgerðir hvaða gagn það gerir. Gerir það eitthvert gagn og hvaða gagn gerir það og hversu mikið? Hvað þurfum við að gera til þess að ná þessum markmiðum? Það er ekkert í gangi. Losun hefur aukist ef við lítum til síðustu ára, í besta falli staðið í stað um tíma, og ekkert sem bendir til þess að við séum að fara að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Enda eru markmiðin bara sett eins og kannski allt annað, út í loftið, eins og niðurskurðurinn allur, út í loftið með krosslagða fingur: Sjáum hvað gerist, við ætlum að gera þetta og gerum það bara einhvern veginn. Þetta er kannski svolítið íslenskt. Kannski er þetta íslenska menningin sem við erum svo hrædd um að spillist með of mörgum útlendingum. Og hvað er lagt til hér? Ekkert. Það er ekkert lagt til til að leysa þetta vandamál.

Ég ætla að láta staðar numið hér í bili þótt ég gæti sannarlega staðið hér í allan dag og bölsótast yfir stefnuleysinu.