154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:18]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir tilraunir til að útskýra þetta aðeins fyrir mér. Ég furða mig aðeins á þessari nálgun. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að málsmeðferðartíminn er allt of langur. Ég held að flestir sem hafa kynnt sér þennan málaflokk séu sammála því. Leiðir til þess að stytta hann eru vel þegnar og það er sannarlega eitthvað sem er partur af þeirri mannúð sem á að vera innan kerfisins. Kerfið kostar samt sem áður fé og við viljum tryggja að þeir sem sækja inn í hælisleitendakerfið fái þá þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum, m.a. talsmann, húsaskjól, uppihald o.s.frv. til þess að það sé mannsæmandi á meðan mál þeirra er tekið fyrir. Síðan kemur annaðhvort já eða nei út úr því. Því fólki sem fær nei ber að fara af landi brott. Ef það fólk sinnir samvinnu við stjórnvöld þá missir það enga þjónustu meðan á því stendur.

Hvernig hægt sé að draga úr kostnaði og hvað þá um 15 milljarða kr. sé ég ekki í svipinn nema þá að við leggjum verndarkerfið niður að einhverju leyti og tökum upp einhvers konar öðruvísi fyrirkomulag. Þá mögulega gæti ég séð fyrir mér að það væri hægt að skera ansi mikið niður í málaflokknum þannig. Er það pæling þingmannsins, svo ég tali nú bara hreint út, að við við leggjum verndarkerfi að einhverju leyti þá til hliðar og tökum bara óheft hér við fólki sem vill koma til landsins (Forseti hringir.) og þá segjum okkur frá þeim skilmálum sem að verndarkerfinu lúta?