154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar hér. Við höfum nú unnið ágætlega saman í gegnum tíðina, ég og hv. þingmaður, hafandi verið saman í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og náð ágætisárangri við að ná utan um þann rekstur sem þar er. Ég er eiginlega bara að verða það gamall að ég nenni ekki alltaf að vera að rífast um einhverja hluti. Af hverju reynum við ekki bara að finna einhverja niðurstöðu? Hver getur niðurstaðan verið? Á ég að fara að rífast yfir því að einhver sé að fá þetta og hitt? Ég vil að börnin mín og unga fólkið okkar búi í umhverfi þar sem fólk getur þrifist og verið öruggt. Hvernig gerum við það? Með því að búa til stöðugleika og þá þýðir ekkert að vera alltaf komandi hér og kenna hver öðrum um, en við verðum þá öll að segja: Já, ég ætla að vera í liðinu. Það þýðir ekkert fyrir suma að segja: Jú, kannski. Við verðum öll að vera í liðinu ef við ætlum að ná árangri. Það verða allir að leggjast á eitt um það að við ætlum að koma verðbólgunni niður. Við vitum að það hafa verið gerðir samningar eins og þjóðarsáttarsamningarnir sem drápu verðbólguna. Það er hægt. Af hverju ætlum við að vera hér að glíma við 7–8% verðbólgu á næsta ári? Hvernig dettur okkur það í hug? Af hverju tökum við ekki bara á? Það er bara miklu betra fyrir íslenskan almenning að geta lækkað afborgunarbyrðina um 100.000 kr. á mánuði heldur en að fá 50.000 kr. launahækkun á mánuði. Það er bara miklu betra og við þurfum að horfa á þetta. Fólk þarf líka að fá að vita: Hvað fæ ég út úr þessu, að ég sé ekki að koma með launahækkanir sem rugga bátnum? Svo eru sveitarfélög sem eru núna að fara að gera fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár og ætla að setja einhverjar 5% hækkanir inn í þetta. (Forseti hringir.) Sveitarfélög verða líka bara að sitja á sér (Forseti hringir.) og taka þátt í þessu eins og allir aðrir ef við ætlum að ná árangri.