154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

samstarf ríkis og einkaaðila í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

[15:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra taki brýningu okkar varðandi skattahækkanir alvarlega og við munum halda okkur við skeiðklukkuna því dæmin hafa sýnt þveröfugt, að það hefur verið haldið í ákveðnar skattahækkanir. Síðan er hitt, ég fagna orðum hæstv. ráðherra í lokin varðandi það sem ég tel hann vera í raun að segja, að fara í aukna samvinnu og aukin samstarfsverkefni við einkaaðila, að hið opinbera fari í markvissa sókn í heilbrigðis- og öldrunarmálum með það að markmiði að fjölga hjúkrunarrýmum í samstarfi við einkaaðila á heilbrigðis- og öldrunarsviði. En það er ekki að ástæðulausu að ég er að reyna að draga þetta fram því að sagan sýnir að þessi ríkisstjórn, síðan hún tók til starfa 2017, gerði einmitt þveröfugt. Hún var með bremsuna á allt sem varðaði samstarf hins opinbera við sjálfstætt starfandi heilbrigðisaðila innan kerfisins. Þannig að ég vil fagna því sérstaklega ef það er viðsnúningur núna hjá ríkisstjórninni með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar, að fara af fullum þunga í það(Forseti hringir.) að fjölga hjúkrunarrýmum í samstarfi við einkaaðila því við þurfum á því að halda. Það er kominn tími til að við sýnum fyrirhyggjusemi í þessum efnum.