154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í þessum tekjubandormi eru ekki mikil tíðindi, ekki frekar en í fjárlagafrumvarpinu sem bandormurinn á að styðja. Tíðindin eru þó helst um það sem ekki er í frumvarpinu. Efnahags- og viðskiptanefnd mun fara ítarlega yfir frumvarpið og leita eftir umsögnum eins og vera ber. Við munum m.a. velta upp áhrifum 3,5% verðlagsuppbótum á krónutölugjöldin í mun hærri verðbólgu. Skoða þarf áhrifin bæði á heimilisbókhald landsmanna og einnig á rekstur Framkvæmdasjóðs aldraðra og Ríkisútvarpsins. Það sama á við um annað í frumvarpinu. Ég vil nefna sérstaklega það að framlengja heimild til að greiða fé úr ofanflóðasjóði vegna hættumats á eldgosum, vatnsflóðum og sjávarflóðum. Rannsóknir Veðurstofunnar í þessum efnum varða þjóðaröryggi og mikilvægt að fjármagna að fullu. Og nú þegar aðgerðir gegn loftslagsvá eru verulega aðkallandi þarf að undirbyggja þær með rannsóknum, bæði hér innan lands og í samstarfi við erlenda vísindamenn. Nefndin þarf að fá svör við því hver áhrifin verða á ofanflóðasjóð og verkefni hans og beina þarf því til fjárlaganefndar að fara yfir útgjöld Veðurstofu og verkefnastöðuna þar.

Vaxandi ójöfnuður á Íslandi er staðreynd þrátt fyrir mótmæli stjórnarliða í þeim efnum. Pólitískar ákvarðanir ýta undir þá þróun. Það er hægt að snúa þessari þróun við ef pólitískur vilji leyfir. Ástæðurnar fyrir auknum ójöfnuði blasa við fólki sem skilur hvernig gott og öruggt samfélag virkar best fyrir flesta og sér á hvaða sviðum er brýnt að grípa til aðgerða. Þeirra aðgerða er ekki að vænta á vakt ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og er ekki að finna í fjárlagafrumvarpi 2024, hvorki á tekju- eða gjaldahlið þess og þar með ekki í frumvarpinu sem við ræðum hér.

Embætti landlæknis birti skýrslu í maí 2021 sem ber yfirskriftina Ójöfnuður í heilsu á Íslandi. Ástæður og árangursríkar aðgerðir til úrbóta. Þar segir m.a. að breytingum megi ná fram með stjórnvaldsaðgerðum sem eru utan heilbrigðiskerfisins. Í skýrslu landlæknis segir, með leyfi forseta:

„Ungt fólk, fólk sem ekki er fastráðið, þeir sem þurfa að annast aðra, fólk af erlendum uppruna og aldraðir eru líklegri til þess að búa við lélega heilsu sökum fátæktar. Fátækt í bernsku getur haft skaðleg áhrif á heilsu allt lífið. Útgjöld til félagslegrar verndar sem auka fjárhagslegt öryggi viðkvæmra hópa vegna örorku, fötlunar, atvinnuleysis o.fl. auka heilsufarslegan jöfnuð.“

Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Bágborin búsetuskilyrði eru nátengd vanheilsu enda eru þeir sem eru húsnæðislausir, búa í lélegu eða óöruggu húsnæði eða húsnæði sem þeir hafa ekki efni á, líklegri til þess að vera við lélega heilsu.“

Að jafna stöðu barna ætti alltaf að vera forgangsmál. Framlög til menntunar allt frá leikskóla jafnar upphafið fyrir hvert barn og vinnur gegn því að ójöfnuður flytjist á milli kynslóða. Ákall hæstv. mennta- og barnamálaráðherra í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra á dögunum var átakanlegt að hlusta á. Ákall hans var augljóst merki um skilningsleysi innan hæstv. ríkisstjórnar á mikilvægi málefna barna. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra var í ræðu sinni að kalla eftir stuðningi við farsæld barna sem þyrfti annars að þrengja að með sparnaði í skólakerfinu og fækkun valkosta á framhaldsskólastigi. Ríkisstjórn eins ríkasta samfélags í heimi vill ekki afla tekna eða forgangsraða fjármunum til að fjármagna menntakerfið svo vel sé eða aðgerðir til að tryggja farsæld barna. Það er ávísun á viðvarandi ójöfnuð.

Nýlegar upplýsingar frá forsætisráðuneytinu um fátækt á Íslandi sýna að tæplega 48.000 einstaklingar lifa hér á tekjum undir lágtekjumörkum. Um 9.000 börn búa við fátækt. Heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar er áætlaður 31–92 milljarðar kr. Fátækt er kostnaðarsöm fyrir samfélagið allt og sérstaklega fyrir þau sem við hana búa. Það er til mikils að vinna að koma í veg fyrir að fólk festist í fátæktargildru. Aðgerðir af slíku tagi er ekki að finna í þeim bandormi sem hér er til umræðu en hann tekur vonandi breytingum í þá veru við vinnslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Beita þarf jöfnunartækjum eins og barnabótum og húsnæðisstuðningi strax til að vinna gegn ójöfnuði, ekki síst nú um stundir þegar stýrivextir eru orðnir helmingi hærri hér á landi en í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Svo háir vextir bitna harkalega á ungum fjölskyldum sem nýlega hafa keypt sína fyrstu íbúð. Aukið framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði þarf augljóslega að vera til staðar til að vinna á húsnæðisvanda til framtíðar.

Norrænu ríkin raða sér efst á öllum stigatöflum yfir lönd þar sem best er að búa. Þar er einnig mestur jöfnuður og traust sem einkennir góð samfélög. Þangað eigum við að leita eftir fyrirmyndum í tekjuöflun og tekjutilfærslum. Barnabætur eru skattafsláttur til barnafjölskyldna, ætlaðar til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Í hinum norrænu ríkjunum eru barnabætur ekki tekjutengdar nema í Danmörku þar sem foreldrar með rífleg meðallaun fá samt sem áður óskertar barnabætur. Jöfnunin er tekin í gegnum tekjuskattskerfið en ekki með tekjuskerðingum og tilheyrandi jaðarsköttum líkt og hér á landi.

Á árinu 2024 verða barnabætur í sögulegu lágmarki ef miðað er við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Óskertar barnabætur með hverju barni á næsta ári verða 25.833 kr. á mánuði hjá einstaklingum í sambúð, hækka um 5% á milli áranna 2023 og 2024. Par með rétt rúm lágmarkslaun fær ekki óskertar barnabætur því við svo lágar tekjur hefst skerðingin í núverandi barnabótakerfi. Þessu viljum við jafnaðarmenn breyta og taka tímasett og fjármögnuð skref strax á næsta ári í átt að betra og skilvirkara barnabótakerfi að norrænni fyrirmynd.

Frumvarpið sem við ræðum hér gerir ráð fyrir að viðmið fyrir vaxtabótakerfið verði óbreytt á næsta ári þrátt fyrir að vextir hafi hækkað umtalsvert og séu verulega íþyngjandi fyrir skuldug heimili. Í skýringum með frumvarpinu segir að þar sem fasteignamat hafi hækkað, sem hefur áhrif á skerðingar, muni kostnaður við kerfið ekki vaxa. Laun hafa einnig áhrif á skerðingar þannig að ef viðmiðum er haldið óbreyttum fá færri stuðning í gegnum vaxtabótakerfið þegar raunin er sú að enn fleiri þurfa á stuðningi að halda. Vaxtabætur og húsnæðisstuðningur fyrir leigjendur eru sanngjarnar og nauðsynlegar aðgerðir.

Skattbyrði hátekjufólks hefur minnkað frá árinu 2013 en skattbyrði lágtekjufólks vaxið á sama tíma. Lækkandi raungildi á barnabótum og vaxtabótum hefur haft áhrif á kjör ungra fjölskyldna til hins verra. Það á að beita skattkerfinu með skilvirkum hætti til að afla tekna en einnig til að vinna gegn ójöfnuði. Ávinningurinn fyrir samfélagið allt er fólginn í betri andlegri og líkamlegri heilsu almennings. Það er þess virði, herra forseti, að jafna leikinn.

Samfylkingin lagði fram tillögu fyrir tæpu ári síðan um aðgerðir til að ná samstöðu í landinu um viðbrögð við verðbólgu og vaxtahækkunum. Tilgangurinn var þá að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, draga úr greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu í hagkerfinu. Fyrir sömu aðgerðir er þörf nú ári síðar. Tillögurnar fjölluðu í fyrsta lagi um að sett verði á leigubremsa að danskri fyrirmynd. Í öðru lagi að vaxtabótakerfinu verði beitt til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána, annaðhvort með varanlegum breytingum á skerðingarmörkum vaxtabótakerfisins með möguleika á fyrirframgreiðslu eða með einsskiptis tekjutengdri vaxtaniðurgreiðslu. Jafnframt verði leitað leiða til að koma til móts við fólk með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána. Í þriðja lagi að barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð til að mæta hækkun á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur. Í fjórða lagi að ráðist verði í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. Reglur settar gegn því að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur. Innleiddir verði tímabundnir hvalrekaskattar með viðbótarfjármagnstekjuskatti og sérstöku álagi á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mesta fiskveiðikvótanum.

Allar þessar tillögur eru enn í fullu gildi og eru nauðsynlegar til að auka traust og skapa sátt um leiðina áfram veginn. Með réttlátu og skilvirku skattkerfi er meginmarkmiðið að afla tekna til samneyslunnar, fyrir velferðarsamfélagið en það er einnig til að hafa áhrif á tekjudreifingu í samfélaginu, ná félagslegum markmiðum, leiðrétta fyrir markaðsbrestum, til sveiflujöfnunar í efnahagslífinu, ná til auðlindarentu, til atvinnuuppbyggingar og byggðastefnu.

Skattapólitíkin er mikilvæg. Skattapólitík er um hverjir borga skatta, hve mikið og hvenær. Skattstefna sýnir áherslur stjórnvalda hverju sinni, sýnir hvert þau vilja fara með samfélagið. Tekjuöflunarhlutverkið er augljóslega mikilvægt en jöfnunarhlutverk skattkerfisins er ekki síður mikilvægt, hvernig skattar og gjöld hins opinbera nýtast til að jafna leikinn, sætta sjónarmið og gera það mögulegt að enginn sé skilinn eftir. Einnig til að ná fram ákveðnum markmiðum, svo sem í umhverfis- og auðlindamálum eða lýðheilsumálum.

Við eigum að þora að tala um skatta. Nú um stundir eru það breiðu bökin, stórútgerðir, fjármálastofnanir og þeir sem fá launin sín greidd sem fjármagnstekjur sem þurfa að greiða sinn sanngjarna skerf til samfélagsins. Ríkisstjórnin vill alls ekki snerta þessa hópa en hikar ekki við að fara ofan í vasa almennings með gjaldahækkunum líkt og frumvarpið sem við ræðum hér ber vitni um.

Við þurfum líka að þora að tala um skattsvik og notkun skattaskjóla. Vísindamenn sem rannsakað hafa notkun skattaskjóla segja að ríkissjóður Íslands verði af 22% af fyrirtækjaskatti vegna skattundanskota á hverju ári. Hlutfallið hér á landi er það næsthæsta innan OECD-ríkjanna. Ríkissjóður verður af í það minnsta 15 milljörðum kr. á ári hverju vegna þess að fyrirtæki fela fé og eignir í skattaskjólum. Og það gera einstaklingar auðvitað fyrir hönd félaga sinna. Fyrir þann pening mætti t.d. bæta kjör öryrkja og eldra fólks eða hækka greiðslur til ungra fjölskyldna í landinu. Þeir sem nota skattaskjól gera það til að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og eignum og vilja láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum, láta aðra halda hér uppi heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og öðrum innviðum samfélagsins. Þau vilja ekki borga til samfélagsins réttlátan hlut líkt og aðrir gera en þiggja þjónustuna.

Stjórnvöld þurfa að ganga ákveðin til verks og koma í veg fyrir að skattsvik og notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, bæði fjárhagslega og siðferðislega. Hæstv. ríkisstjórn sem nú situr virðist ekki hafa mikinn áhuga á þessu. Það þarf að breyta skattareglunum þannig að sem minnst verði um notkun skattaskjóla og styrkja skattyfirvöld til að fylgjast með framkvæmd reglnanna. Eitt er víst, forseti, að án ábyrgðar geta samfélög ekki virkað. Ábyrgðin á rekstri þjóðfélagsins er okkar allra.