154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það var sláandi að hlusta á hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur fjalla um hina miklu aukningu á heimilisofbeldi hér á landi og þau áhrif sem slíkt ofbeldi hefur á þá sem fyrir því verða. Á 145. þingi var hegningarlögum breytt til að undirstrika alvarleika þessa ofbeldis. Þessi breyting var m.a. gerð til að leiða í lög hinn svokallaða Istanbúl-samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Við þetta tækifæri var bætt við b-lið í 218. gr. hegningarlaga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Þessi skilgreining á ofbeldi í nánum samböndum virðist samt ekki vera nægilega skýr ef marka má þá dóma sem hafa fallið þar sem ekki er dæmt eftir þessari grein. Þetta gera þeir þrátt fyrir að fallið hafi fordæmisgefandi dómur í Hæstarétti í fyrra um nákvæmlega það hvenær þessi grein á við. Eins ríkir réttaróvissa um hver skilgreiningin er á nánu sambandi en miðað við dómafordæmi njóta ógiftir einstaklingar og einstaklingar í óskráðri sambúð ekki þessarar réttarverndar. Ég skora því á hv. allsherjar- og menntamálanefnd að taka til skoðunar að eigin frumkvæði hvort skýra þurfi betur þessa grein í lögum svo að hún verði auðlæsilegri og auðskiljanlegri fyrir þá sem þurfa að ákæra og dæma eftir henni.