154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru allir að tala um heilbrigðiskerfið og sem betur fer eigum við mjög mörg sögur af því, góðar sögur af því hvernig kerfið grípur okkur. En þeim fer fjölgandi, vondu sögunum. Við þekkjum slæma stöðu bráðaþjónustu Landspítalans, við þekkjum vaxandi biðlista eftir þjónustu sérfræðilækna, eftir geðheilbrigðisþjónustu, þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga, svo dæmi séu tekin. Þetta hefur því miður ekki lagast, þvert á móti. Það sem brennur á fólki nú til viðbótar er grunnþjónustan. Á heilsugæslunni eru biðlistarnir nú komnir í harða baráttu við hina illræmdu biðlista innan heilbrigðiskerfisins sem við þekkjum.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því risaverkefni sem það er að veita stöðuga og góða heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu en mig langar að setja þessa stöðu í samhengi við skatta. Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru skatttekjur ríkissjóðs og tryggingagjöld áætluð um 1.200 milljarðar kr. Þetta eru 27% af vergri landsframleiðslu og það þýðir einfaldlega að skattar og tryggingagjöld eru 27% af markaðsvirði allrar vöru og þjónustu sem er framleidd á Íslandi. Þetta er fjárhæðin. Þetta er hlutinn sem rennur í ríkissjóð í gegnum skatta og gjöld. Við erum og við viljum vera velferðarsamfélag og það er samfélagsleg sátt um það í íslensku samfélagi að við leggjum okkar af mörkum til þess í gegnum skattkerfið. En það var annar rauður þráður í samtölum mínum við fólk í sumar og það er sú vaxandi tilfinning fólks að skattarnir séu ekki nýttir nægilega vel til að standa undir þessari grunnþjónustu sem við erum að leggja skattpeningana okkar í, að sá tæpi þriðjungur af verðmæti allrar vöru og þjónustu sem til fellur í landinu sé ekki nýttur nægilega vel, ekki eins og best verður á kosið fyrir fólkið í landinu. Það er ótækt. Staðan í heilbrigðismálum, þar sem brýnna úrbóta er þörf, má ekki verða skjól fyrir óráðsíu í fjármálum ríkisins. (Forseti hringir.) Þvert á móti er brýnna en nokkru sinni fyrr að sýna ábyrgð og aðhald og leggja áherslu á bætta forgangsröðun. Fyrir því höfum við í Viðreisn talað og við munum halda því áfram (Forseti hringir.) og við óskum eftir að það fjölgi í þeim hópi.