154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra háskólamála hefur núna kynnt til sögunnar umfangsmiklar kerfisbreytingar á fjármögnun háskólanna og það er ljóst að 38 milljörðum verður núna úthlutað til háskólanna í gegnum hið nýja líkan sem byggist öðru fremur á því að útdeiling fjármuna muni taka mið af stúdentum sem ljúka einingum annars vegar og svo útskrifast úr námi hins vegar. Ég ætla að nýta tækifærið hérna í dag og fagna því að vinna ráðuneytisins hafi skilað sér í nýjum úthlutunarreglum enda hefur verið kallað eftir þeim í fjölda ára eftir úttekt Ríkisendurskoðunar frá 2007. Þó eigum við hins vegar eftir að sjá útfærslu nýrra reglna í reynd. Það er langt í frá allt sem liggur ljóst fyrir á þessum tímapunkti. Það er t.d. yfirlýstur tilgangur með nýju kerfi að gagnsæi þess skuli tryggja að skólarnir sjái að meiri og betri árangur skili þeim auknu fjármagni. Þar skulum við þó ögn staldra við, því við verðum umfram allt annað að stuðla áfram að því að aðgengi að námi, óháð efnahag og félagslegum aðstæðum, sé tryggt.

Það er langt í frá ásættanlegt að aðeins 38% ungs fólks hér á landi á aldrinum 25–34 ára hefur sótt sér háskólamenntun þegar tölurnar eru 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð. Ef við ætlum að koma í veg fyrir að þetta bil aukist enn frekar þá þarf með öllum tiltækum ráðum að tryggja jafnrétti til náms í reynd, þ.e. koma í veg fyrir of hamlandi aðgangstakmarkanir til að námið verði að veruleika.

Herra forseti. Ráðherra segir sjálf að kakan er að stækka og ég ætla rétt að vona að stúdentar fái sanngjarna sneið af henni, háskólasamfélagið á Íslandi fái þá virðingu sem það á skilið.