154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

réttlát græn umskipti.

3. mál
[15:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt áhugaverð. Það sem vakti athygli mína var umræða hans um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og um skilyrði til þess að góðar almenningssamgöngur væru til staðar. Mér heyrðist á honum að hann væri ekki að lýsa Reykjavík. Það þyrfti að vera þétt borg, þéttvaxin borg, til að góðar almenningssamgöngur fengju að njóta sín. Núna er Reykjavík ótrúlega dreifbýl eða höfuðborgarsvæðið dreift yfir stórt landsvæði, eiginlega hálfgisin borg. Ég get ekki séð að — jú, það er gott að hafa góðar almenningssamgöngur en mér finnst skilyrðin ekki alveg vera fyrir hendi, og líka með vísan til orða þingmanns, ef ég skil hann rétt, fyrir góðum almenningssamgöngum á Reykjavíkursvæðinu, á höfuðborgarsvæðinu, þar sem borgin er svo dreifð. Munu Reykvíkingar ekki alltaf taka einkabílinn fram yfir almenningssamgöngur út af skipulagi borgarinnar? Þarf ekki að byrja á því að þétta borgina miklu meira áður en við getum farið að — jú, það er gott að reyna að hafa sterkar almenningssamgöngur, ég mæli með því, er stuðningsmaður þess, en mér finnst einhvern veginn að það verði mjög erfitt að fá höfuðborgarbúa til að fara í almenningssamgöngur vegna skipulagsins, sem er skipulag út frá bílnum. Við þurfum að breyta skipulaginu í grundvallaratriðum. Maður sér það sérstaklega í samanburði við aðrar borgir eins og Ósló, Kaupmannahöfn og fleiri borgir þar sem byggðin er miklu þéttari. Það er ekki veðurfarið sem kemur í veg fyrir að við notum almenningssamgöngur. Mér finnst það vera skipulag borgarinnar, grunnskipulag höfuðborgarsvæðisins.