154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki viss um að ég komist yfir að svara öllu en ég skal reyna. Íslenskar sérreglur, hv. þingmaður fer í það að við erum enn þá með þá sérreglu að þeir sem hafa fengið vernd annars staðar geti í mjög afmörkuðum tilfellum engu að síður sótt um vernd hér. Með því er ekki sagt (Gripið fram í.) … Já. En ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni, ég var ekki endilega sammála því að hafa slíka reglu inni. En eins og hér hefur margoft verið rætt í þessum sal eru skiptar skoðanir í þessum málaflokki og við höfum náð að mínu viti ágætlega utan um þennan málaflokk, fyrst með þeim lögum sem tóku gildi, held ég, 2016, og voru þá unnin í þverpólitískri nefnd og svo unnum við þessar breytingar, ég og hv. þingmaður og fleiri þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, síðast. Það var ekki samkomulag þar um að taka út þetta ákvæði sem hv. þingmaður vísaði sérstaklega í. Svo talar hv. þingmaður um Mannréttindadómstól Evrópu og að þetta sé svipað atvik. Það er ekki mat mitt að það sé svipað atvik og hér um ræðir. Ég ítreka aftur það sem ég sagði áðan að þegar fólk er tilbúið að vinna með íslenskum stjórnvöldum þá er það enn þá í búsetuúrræðinu. En það kann vel að vera að við þurfum að bregðast við og vera með það sem kallað er lokuð búsetuúrræði og hæstv. dómsmálaráðherra hefur boðað slíkt frumvarp. Ég get ekki svarað því af hverju það er sett í þessa grein en ekki aðra. Ég held að tækifærið sé til að ræða það mál við dómsmálaráðherra þegar hún kemur fram með það mál og við förum yfir það í nefndinni. Hvað sveitarfélögin varðar þá er það alveg rétt sem fram hefur komið að hér svaraði hæstv. félagsmálaráðherra því til, og ég held að ég hafi gert það líka í atkvæðaskýringum, að fólk ætti að geta leitað til sveitarfélagsins og þessi neyðarréttur útlendinga gæti mögulega í einhverjum tilfellum átt við. (Forseti hringir.) Ég fer kannski betur yfir það í næsta andsvari.