154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrir að leggja þetta mál fram. Mig langar að hrósa Viðreisn fyrir að koma með þetta mál hingað inn í þingsal og hafa það einmitt fyrsta mál á dagskrá. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég vil hrósa flokknum fyrir að standa þá bara fyrir því sem flokkurinn var einmitt stofnaður til að gera; vera Evrópusambandsaðildarsinni. Frábært hjá ykkur, því að á síðasta kjörtímabil held ég að þetta hafi verið eitt af síðustu málunum sem komu á dagskrá og enginn tók þátt í einhverri umræðu um það. Ég ætla líka að hrósa flokknum fyrir að setja Evrópusambandsaðildarviðræður eða aðlögunarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu um það á dagskrá en hætta þessum evrublekkingarleik eins og var síðast, að tala fyrst um það að taka upp evruna og svo geti Evrópusambandið komið einhvern tíma seinna. Vonandi erum við öll búin að átta okkur á því að það er bara blekkingarleikur. Ef Ísland vill taka upp evruna þá göngum við í Evrópusambandið. Ég held að það sé alveg skýrt og ég veit að hv. þingmaður ætti að vera sú sem þekkir það manna best að það þarf að tengjast.

Ég ætla líka að segja að mér finnst rosalega gaman að ræða um Evrópusambandið. Ég elska Evrópusambandið, mér finnst það frábært, en ég vil ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er allt önnur spurning. Hv. þingmaður spyr hér áðan í ræðu: Í hvaða liði erum við? En er það í alvöru spurning? Það er alveg kristaltært í hvaða liði við erum. Við erum í liði með líkt þenkjandi þjóðum. Við vinnum náið með Evrópusambandinu. EES-samningurinn er okkur grundvallarplagg. Aðild okkar að NATO er það líka, þannig að það þarf ekkert að velta því fyrir sér og við þurfum ekkert að ganga í Evrópusambandið til að segja í hvað liði við erum. Það liggur skýrt fyrir.

En mig langar þá að spyrja hv. þingmann: Af hverju treystum við ekki þjóðinni? Hvað eru margir þingmenn á Alþingi Íslendinga í dag sem eru fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið? Hvað voru kjósendur (Forseti hringir.) að kjósa um síðast þegar þeir kusu til Alþingis? Hvernig stendur á því (Forseti hringir.) að hér er eingöngu einn flokkur sem talar fyrir því af fullri alvöru að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið?