154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Brims gegn Samkeppniseftirlitinu var birt í gær. Það er langt síðan viðlíka rassskelling hefur verið birt á heimasíðu opinberra stjórnvalda. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp stuttan kafla úr niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar:

„Í samkeppnislögum er ekki gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstakar athuganir stofnunarinnar eða tilhögun þeirra sem leiði til þess að stofnunin skili niðurstöðum sínum til þeirra í formi skýrslna gegn greiðslum. Verður að telja að slíkt samræmist ekki því hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem því er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðs stjórnvalds. Með hliðsjón af því verður þaðan af síður talið að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum til að knýja á um afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa.“

Virðulegur forseti. Það er með miklum ólíkindum með hvaða hætti þetta mál hefur unnist áfram. Samningur sem matvælaráðuneytið gerði við Samkeppniseftirlitið um sérstakan erindisrekstur til að undirbyggja pólitíska stefnumótun ráðherra blasti við flestum, held ég, að gæti ekki gengið upp í því samfélagi sem við byggjum, enda tekur úrskurðurinn býsna skýra afstöðu í þessum efnum. En það sem verður að nefna í þessu samhengi er yfirlýsing Samkeppniseftirlitsins frá því í dag þar sem málið er rakið. Þar segir síðan að eftirlitið hafi tekið, með leyfi forseta, „sjálfstæða ákvörðun um að hefja athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi …“ Þetta hefur komið fram áður, en það liggur fyrir í gögnum málsins að matvælaráðuneytið hafði frumkvæði að þessum samningi. Ég held að við verðum að draga það fram hér í þinginu hvor er að segja ósatt. Er það hæstv. matvælaráðherra sem er að segja ósatt eða er það forstjóri Samkeppniseftirlitsins? Annar hvor aðilinn er það. Önnur niðurstaða er útilokuð.