154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.

44. mál
[16:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir ræðuna. Við Vinstri græn ályktuðum einmitt um dýralækna á okkar landsfundi núna í mars og tökum undir það að það er svo mikilvægt að leita allra leiða til þess að fá dýralækna til starfa á Íslandi. Eins og við vitum er menntunin öll erlendis og það er mikil áskorun að tryggja endurnýjun og ekki síst vöxt í stéttinni, þ.e. að við fjölgum dýralæknum. Það er auðvitað mikilvægt að dýravelferð verði vöktuð betur heldur en næst að gera í dag, ég held að við séum alveg sammála um það.

Ég held að það sé mikilvægt líka að skoða, til að reyna að fá dýralækna í dreifðu byggðunum, að auka kannski einhvers konar samninga í gegnum verkefni á vegum hins opinbera, fjölga verkefnum sem dýralæknar geta vel tekið að sér, meira en verið hefur. Það eru kannski ekki á nógu mörgum stöðum þjónustusamningar þar sem væri hægt að búa til hreinlega almennileg stöðugildi þannig að fólk gæti séð sér farborða í starfinu. En eins og hv. þingmaður og framsögumaður þekkir er þessi skortur líka í löndunum sem við berum okkur saman við. Við erum ekki ein um það frekar en í málinu hér á undan að glíma við þetta. Námið er líka langt og svo virðist vera, miðað við þróunina eins og við sjáum hér á höfuðborgarsvæðinu, að yngri dýralæknar séu ekki sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að sinna stórgripum, hvað þá úti í hinum dreifðu byggðum. Gæludýraspítalarnir eru fullir og allt þetta, það eru dýralæknar til að sinna kjölturökkunum, en minna um það að þeir séu æstir í að hjálpa kúm að bera, það er einhvern veginn þannig. Kannski eðlilega, þetta er miklu erfiðara og miklu meira krefjandi og þú ert jafnvel einn í aðstæðum með bónda eða eitthvað slíkt, þannig að það er ekki eins og þetta sé alltaf einfalt.

Í matvælaráðuneytinu hefur verið unnið talsvert mikið að endurskoðun laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og í mars sagði ráðherra frá því að hún hefði ákveðið að ráðast í heildarendurskoðun á löggjöfinni og það er verið að gera. En það er líka auðvitað alltaf verið að reyna að bregðast við þeim bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir og sjáum endurspeglast því miður of oft í slæmum fréttum af aðbúnaði dýra og öðru slíku sem skapast af því að það er ekki mannskapur til að sinna þessu nægilega vel. Síðan má velta því fyrir sér: Gæti Menntasjóður hjálpað eitthvað til þarna, búið til einhverja hvata bæði til þess að stunda námið og, alveg eins og við tölum um lækna, ekki dýralækna heldur hefðbundna lækna, til þess að fá þá til starfa úti í hinum dreifðu byggðum? Mér finnst það alveg mega skoða, þetta er eitthvað sem okkur skortir, mikill skortur á dýralæknum, og mér finnst að það megi alveg hugsa það eins og með hitt.

Svo er það líka, talandi um verkefni og þjónustusamninga og eitthvað þess háttar til að reyna að festa dýralækna í sessi í hinum dreifðu byggðum, að Matvælastofnun hefur engan neyðarsíma, lokar bara klukkan fjögur á föstudögum og það er engin bakvakt fyrir dýr í neyð eða ef eitthvað kemur upp á. Kannski eru aðilar á staðnum, dýralæknar, sem gætu sinnt verkefninu ef þeir hefðu til þess samning. Við sjáum bara eins og með villt dýr að þá erum við að kalla út alls konar aðila og það kostar talsverða peninga, að þeytast landshornanna á milli jafnvel, frá Akureyri til Vopnafjarðar eða eitthvað, til að sinna einhverju þar sem væri jafnvel hægt, eins og ég sagði áðan, að búa til eitthvert heildarstarf.

Dýralæknir segir mér að evrópska matvælalöggjöfin hafi kannski ekki orsakað þetta ástand nema að litlu leyti, en einhverjir hafa kannski haldið því fram varðandi svona samninga af því að það á að aðskilja praxís og eftirlit þannig að það verði ekki hagsmunaárekstrar á milli dýralækna og bænda og ekki heldur á milli dýralæknanna sjálfra. Í sjálfu sér er það ekkert óeðlileg krafa en hún á ekki við í okkar samfélagi, það er svo strjálbýlt að það gengur ekkert upp. Það er ekkert land í Evrópu, held ég, eins strjálbýlt. Kannski hefði vitið verið á þeim tíma að sækja um undanþágu fyrir þessu en það var ekki gert. Norðurhéruð Svíþjóðar eru með undanþágu frá þessari reglu þar sem héraðsdýralæknar stunda praxís í afskekktari byggðum. Ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða. Við höfum auðvitað alltaf möguleika í sjálfu sér, ef við teljum að hagsmunir séu að skarast, að fá einhvern til að leysa það tiltekna mál. En það er með þetta eins og annað, þjónustusamningar við dýralækna þurfa að vera á þeim forsendum að fólk geti skapað sér viðunandi skilyrði til þess að búa á svæðunum og ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að huga að. Það er margt hérna undir sem þarf að skoða.

En í grunninn held ég að við þurfum að horfa til Menntasjóðs til þess að vita hvort hann getur hjálpað til við að laða dýralækna að og svo hitt, að fela dýralæknum á dreifbýlum svæðum aukin verkefni. Þetta mál fer náttúrlega inn í atvinnuveganefnd og ég hlakka til að takast á við þetta og þar koma auðvitað fram fleiri hugrenningar varðandi það hvernig hægt er að leysa þetta með góðu móti.