154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillaga um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði, í fimmta sinn. Með mér á þingsályktunartillögunni er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Það skal tekið fram að öllum þingmönnum sem ráðherrum var boðið að gerast meðflutningsmenn á þessari tillögu en enginn þáði það.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok ársins 2024 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóð en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Þeim fjármunum sem breytingin skilar ríkissjóði skuli varið í þágu aukinnar velferðar.“

Tillagan er nú endurflutt óbreytt eins og ég segi og það í fimmta sinn en eðli málsins samkvæmt hefur hún ekki náð fram að ganga til þessa. Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og námu um 6.950 milljörðum kr. í lok júní 2023 samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði eru um 290 milljarðar kr. á ári. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2022 var hlutfallið komið í hvorki meira né minna en 180% samkvæmt hagtölum lífeyrissjóða sem birtast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lífeyrismál.is.

Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóða eru í íslensku viðskiptalífi. Stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnulífsins sem síðan skipa stjórnarmenn til að sitja fyrir hönd sjóðanna í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga hlut í. Þannig eru tengslin á milli eigenda fjármagnsins (sjóðfélaga) og þeirra sem annast fjárreiður lífeyrissjóða lítil sem engin. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila sem starfa samkvæmt lögbundinni ávöxtunarkröfu en ekki vilja sjóðfélaga sjálfra. Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja viðskipti sem sjóðfélögum blöskrar hreinlega. Með því að greiða skatta af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóði má sporna við því að lífeyrissjóðir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins.

Fjármuni skortir til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á íslenska velferðarkerfinu. Heilbrigðiskerfið stendur á brauðfótum, bætur almannatrygginga duga ekki til framfærslu og bilið milli hinna ríku og hinna fátæku eykst ár frá ári. Því er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs og nýta þær í þágu fólksins. Skattlagning við innlögn í lífeyrissjóð í stað útgreiðslu er sársaukalaus leið til að stórauka tekjur ríkissjóðs og gerir okkur kleift að styrkja velferðarkerfið án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings.

Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi eru iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda ekki skattlögð. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega skattlagðar. Þannig er skattlagningu þeirra fjármuna sem mynda stofn lífeyrissparnaðar frestað þar til kemur að útgreiðslu þeirra. Ávöxtun lífeyris er ekki áhættulaus og hefur borið við að lífeyrissjóðir skili verulegu tapi. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkissjóður sæki skatttekjurnar strax í upphafi og geti því ráðstafað þeim á eigin forsendum í stað þess að treysta lífeyrissjóðum alfarið til að ávaxta allt þetta fé.

Eðli málsins samkvæmt lækkar það fjármagn sem streymir inn í lífeyrissjóðina um það sem nemur staðgreiðslunni verði breytingin að veruleika. Á móti kemur að ekki greiðist skattur þegar sá sparnaður er leystur út og því hefur breytingin ekki í för með sér hlutfallslega rýrnun á ávöxtun lífeyrissjóða.

Miðað við greiðslur í lífeyrissjóði á árinu 2022 og 36% skatt myndi staðgreiðsla við innborgun skila ríkissjóði og sveitarfélögum samtals rúmum 100 milljörðum kr. árlega. Samþykkt þessarar tillögu myndi því veita þjóðinni einstakt tækifæri til úrbóta. Það er þörf á aukinni fjárfestingu í velferð og því er brýnt að ríkið nýti auknar tekjur vegna staðgreiðslu við innborgun í þágu þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Efla þarf rekstur heilbrigðiskerfisins og fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum. Átaks er þörf til að auðvelda atvinnuþátttöku öryrkja. Það myndi leiða til þess að fleiri kæmust aftur inn á vinnumarkað og skiluðu ríkissjóði enn auknum skatttekjum. Draga þarf úr skattbyrði láglaunafólks og lífeyrisþega og auka ráðstöfunartekjur þeirra. Þá myndu líkurnar minnka á að fólk þyrfti að fjármagna neyslu með skuldsetningu og festist í fátæktargildru. Grundvallarforsenda þessarar tillögu er að auknir fjármunir hins opinbera verði nýttir í þágu fólksins.

Ég vil taka það fram að ég hef frá því að ég kom á Alþingi Íslendinga og varð kjörinn fulltrúi fyrir fólkið í landinu, til að vinna fyrir fólkið í landinu eins og við gerum í Flokki fólksins af hug og hjarta, talað við hundruð einstaklinga sem eiga uppsafnaðan lífeyrissjóð eftir starfsævi sína og hafa ekki greitt staðgreiðslu við innborgun í sjóðina. Ég hef spurt að þessu einmitt: Hvort telur þú farsælla að afnema skerðingar og hætta að skattleggja fátækt fólk, koma lágmarksframfærslu upp í 400.000 kr. eins og nú er forgangsmál Flokks fólksins, það var þingsályktunartillaga sem ég mælti fyrir í gær, hvort viltu það og greiða staðgreiðsluna strax og fá í rauninni peningana þína útborgaða þegar þú þarft á þeim að halda, ert kominn á eftirlaun eða hefur jafnvel lent í slysum og hrakningum og þarft þá að nýta lífeyrissjóðinn — hvort telur þú farsælla að greiða skattinn strax eða láta lífeyrissjóðinn ávaxta þessa peninga og þú greiðir skattinn af útborguninni þegar kemur að þeirri útgreiðslu? Það voru ekki bara 90% eða 95%, það voru 100% allir á því að þeir vildu frekar vera búnir að greiða staðgreiðsluna, eins og allir aðrir í samfélaginu gera reyndar, hvort sem þeir eru launþegar eða fyrirtæki. Við þurfum að standa skil á okkar sköttum og skyldum mánaðarlega, alltaf. Við búum við staðgreiðslukerfi en lífeyrissjóðir hafa fengið undanþágureglu frá þeirri staðgreiðslu. Þannig hafa þeir fengið að halda eftir í sínu risaveldi, peningaveldi með tæplega 7.000 milljarða kr. til að ávaxta, og tekið í rauninni þessa peninga, staðgreiðsluna okkar, til sín líka sem annars kæmu til okkar í okkar sameiginlegu sjóði. Það myndi um leið, eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu, hjálpa og styðja við þá sem bágast standa í samfélaginu og styrkja þær stoðir velferðar sem Flokkur fólksins berst fyrir og vill styrkja.

Ég verð að segja það, frú forseti, ég átta mig engan veginn á því hvers vegna í ósköpunum við sækjum ekki þetta fé, ég bara átta mig engan veginn á því. Ég skil ekki hvernig stendur á því. Hérna megin erum við að selja banka eins og það hefur gengið þokkalega fyrir sig eða hitt þó heldur, erum að taka inn einskiptisfjármuni í ríkissjóð þar sem hæstv. fjármálaráðherra er óþreytandi að tala um hversu vel það fjármagn nýtist og hversu frábært það sé að fá þarna inn t.d. 53 milljarða kr. eingreiðslu. Þetta er einskiptisaðgerð, við erum ekki að fá þessa peninga árlega. Við erum að selja frá okkur gullgæsina. Við erum að selja frá okkur bankana sem eru að skila okkur alveg ómældum og ótrúlegum arði inn í ríkissjóð, enda eru þeir að mergsjúga samfélagið eins og við vitum og græða á tá og fingri á því hræðilega ástandi sem okurvextirnir og verðbólgan eru að skapa í samfélaginu. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki einfaldlega afnema þessa undanþágureglu og helst strax í gær eða fyrir þessum fimm árum þegar við byrjuðum í Flokki fólksins að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu? Ég næ ekki utan um það hvers vegna þessu er ekki fylgt eftir. Ég næ ekki utan um það hvers vegna við viljum ekki taka inn tugi milljarða á hverju einasta ári í staðgreiðslu frá sjóðunum.

Þeir sem hafa verið að mæla þessu í mót segja: Þið eruð í rauninni með þessu að koma í veg fyrir það að einstaklingar sem eru að borga í lífeyrissjóðina geti ávaxtað fé sitt þar til kemur að útgreiðslu. Á móti kemur að þessir einstaklingar hafa aldrei verið spurðir að því hvort þeir vilji heldur greiða við innborgun eða útborgun, hvort þeir treysti fullkomlega lífeyrissjóðunum yfir höfuð til að ávaxta peningana sína eða ekki. Þeir eru ekki spurðir að þessu, þeir eru ekki spurðir einu sinni að þessu. En staðreyndin er sú, sem er nú sorglegi þátturinn í öllu saman, að það eru ansi margir og allt of margir sem hafa dáið áður en kemur að því að fá að nýta sér það fjármagn sem þeir hafa greitt inn í lífeyrissjóðakerfið.

Ég tala í rauninni fyrir munn þeirra sem eru ellilífeyrisþegar og eiga mjög erfitt fjárhagslega sem hafa sagt það skilyrðislaust að það myndi koma sér betur fyrir þau að þurfa ekki að greiða 34–36% staðgreiðslu við útborgun af sínu fé heldur vildu þau fá útborgunina og hafa greitt staðgreiðslu af henni þegar þau voru ung og frísk og höfðu meira bolmagn til þess og gátu aflað sér frekari tekna, höfðu tækifæri til þess þá frekar en þegar maður er kominn á eftirlaun eða er orðinn öryrki eða hefur fatlast eftir slys. Allir sem ég hef talað við segja skilyrðislaust að þeir vilji afnema skerðingar, vilji fá að lifa með reisn og hafa lágmarksframfærslu þannig að fólk geti náð endum saman og lifað sómasamlegu lífi. Flokkur fólksins er ekki einungis flokkurinn sem segir fólkið fyrst, svo allt hitt. Við segjum líka: Það eru grundvallarmannréttindi og það er skylda allra stjórnvalda að sjá til þess að þegnunum séu tryggð grundvallarmannréttindi, fæði, klæði og húsnæði.

Hér erum við með sjóði sem eru að springa af peningum og við þá sem halda því fram að þetta myndi draga úr og fyrir rest eyðileggja sjóðakerfið segi ég einfaldlega: Dettur nokkrum í hug að fólk hætti að borga í lífeyrissjóði? Ég veit ekki betur en að okkur sé að fjölga, alveg ótrúlega hratt, og hér séu mörgum sinnum fleiri vinnandi hendur heldur en við höfum nokkurn tíma haft áður. Ég veit ekki betur en að þessar vinnandi hendur og nýjar kynslóðir haldi áfram að greiða í lífeyrissjóði. Ég get engan veginn áttað mig á því hvernig allir þessir 7.000 milljarðar ættu mögulega bara að gufa upp einhvers staðar á ferlinu, eins og við séum bara ekki endurnýjast að einu eða neinu leyti eða fá fleiri hendur sem leggja hönd á plóg á vinnumarkaðnum. Þannig að það er bara galið, það er bara fáránlegt. Það er eins og með þetta, græðgin er svo mikil að það er víst aldrei nóg af peningum þarna og yfirbyggingin á þessu lífeyrissjóðakerfi er komin langt yfir 20 milljarða kr. á ári og það þykir allt í lagi. Það þykir í lagi að vera með óráðsíu og yfirbyggingu í þessu sjóðakerfi fyrir yfir 20 milljarða kr. á ári en það þykir rosalega slæmt að vera með staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóðina.

Þessi þingsályktunartillaga er frábær að mati Flokks fólksins og allra þeirra sem ég hef talað við fyrir utan þing, algerlega gjörsamlega frábær. Ef það væri raunverulegur vilji til þess að sækja fjármuni þangað sem þeir eru fyrir og forgangsraða þeim fyrir fólkið fyrst þá er þessi tillaga gullið tækifæri til þess. Ég segi ekkert annað en að það hefur eiginlega komið mér mjög á óvart hvað þessi þingsályktunartillaga hefur í rauninni notið lítillar jákvæðni. Hins vegar man ég það að hér á árum áður hafði sá góði og ágæti flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, þessar hugmyndir á einhverjum tímapunkti. Einhvern veginn hafa þeir beygt frá því, ég veit ekki alveg út af hverju. Flokkur fólksins er að leggja hér til ýmsar breytingar án þess að vera með skattahækkanir, án þess að boða auknar álögur á þegnana heldur viljum við sækja fjármuni þangað sem þeir eru fyrir og því skora ég á Sjálfstæðisflokkinn sem og alla aðra að taka utan um þingsályktunartillöguna og sækja þessa auðfengnu fjármuni. Okkur er í lófa lagið að gera það.