154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við hv. þingmann eftir þessa eldræðu. Staðreyndin er sú að ef fallist verður á þessa tillögu þá mun íslenskt launafólk ekki njóta þeirrar ávöxtunar sem felst í skattfrestuninni. Og nú ætla ég að upplýsa hv. þingmann: Lífeyrisréttindi meðallaunamanns sem er á vinnumarkaði í 40 ár, miðað við 3,5% lágmarksávöxtun lífeyrissjóðanna í þessi 40 ár, verður 50 milljónum lakari en hún væri annars samkvæmt núverandi kerfi. Það mun kosta hann 50 milljónir í verri lífeyrisréttindi, hann á eftir að greiða skatt af því, en hann hefur notið ávöxtunar af þessari skattfrestun í 40 ár, sem Flokkur fólksins ætlar að svipta viðkomandi.

Ég er ekki vanur því, frú forseti, að fara með stóryrði hér í ræðustól líkt og margir aðrir, en ég ætla að halda því fram að þessi tillaga, nái hún fram að ganga — og ég vona svo sannarlega að efnahags- og viðskiptanefnd taki hana til efnislegrar umfjöllunar og að meiri hlutinn leggi til að hún verði felld hér í þingsal, vegna þess að þetta er bein árás á íslenskt launafólk, einhver mesta og grimmasta árás sem ég hef upplifað hér í þessum þingsal, allt í nafni Flokks fólksins.