154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:53]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni. Það er augljóst að þetta er málaflokkur sem við látum okkur öll varða í þessu samhengi. En ég held að einmitt vegna þess sé mjög mikilvægt að við festumst ekki bara í ákveðinni orðræðu eða tölum í kringum hlutina í aðgerðaáætlun heldur tölum raunverulega um hvað er á bak við orð og átök.

Hér ræddi hæstv. ráðherra um aðgerðaáætlanir, um framkvæmdaáætlanir og aukinn sveigjanleika til að byggja upp hjúkrunarrými, en það kemur ekkert fram um fjármögnun rýmanna. Þetta er risamál, fjármögnun rýmanna nýju: 400 rými 2028 sem ekki er gert ráð fyrir fjármögnun á í rekstri. Stóru verkefnin núna hljóta að vera þau að halda utan um heilbrigðiskerfið og við vitum, eins og ég fór yfir hér í minni fyrstu ræðu, að brotakennd þjónusta við aldraða hefur gríðarleg áhrif á heilbrigðiskerfið í heild sinni. Ég óttast það, virðulegi forseti, að Gott að eldast verði svolítið eins og farsældarfrumvarpið; fjármagn verði veitt í að vinna áætlanir og búa til tengiliði en á bak við þessar áætlanir sé ekki fjármagn fyrir raunverulega þjónustu. Það hlýtur að þurfa að skoðast í samhengi við tölurnar sem við sjáum í rekstri hjúkrunarrýma og fjármagni í heimahjúkrun.

Hér áðan var komið inn á að það væri víst aukið fjármagn inn í heimahjúkrun, ólíkt því sem ég hélt fram í fyrirspurn minni. Ég vil nú bara horfa á fylgirit fjárlaganna þar sem er talað um Miðstöð heimahjúkrunar, samning um heimahjúkrun. Það er samdráttur að raunvirði. Þetta sýna tölurnar svart á hvítu. Ég tek þetta ekki bara ofan úr kollinum mínum. Þannig að ég beini því núna til hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki fjármögnun fyrir rekstri nýrra rýma í núverandi fjármálaáætlun? Hvernig stendur á því að fjármagn í heimahjúkrun er ekki í takt við átaksmálflutning ráðherra? Og að lokum: Hver er staðan á hjúkrunarrýmum fyrir fólk með fíkni- og fjölþættan vanda sem átti að opna 2021?