154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er málið endurflutt óbreytt frá síðasta þingi. Það kemur mér nokkuð á óvart. Eins og kemur fram í greinargerð voru gerðar athugasemdir við að ekki hefði t.d. verið haft samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks varðandi það að koma til móts við þá aðila sem ekki geta sótt póstinn sinn í bréfakassasamstæður af einhverjum ástæðum, t.d. sökum fötlunar, aldurs eða veikinda. Þetta samráð er grundvallaratriði og mér fannst ljóst af umfjöllun nefndarinnar að það þyrfti að ná betur utan um þetta. Það er ekki hægt að renna blint í sjóinn með lagabreytingar án þess að eiga samráð við fatlað fólk. Þannig virkar einfaldlega kerfið okkar. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að í sumar var sett af stað tilraunaverkefni með bréfakassasamstæður á Kópaskeri, praktískt dæmi þar sem ekki var haft samráð við þessi samtök, þar sem sett var upp samstæða en ekki hugað sérstaklega að því hvernig væri hægt að koma til móts við þá aðila sem ekki geta sótt póstinn sinn. Nú eru því sporin farin að hræða, frú forseti, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra beint út: Hvernig datt ráðuneytinu í hug að koma með þetta óbreytt, án þess að eiga þetta samráð sem þarf að eiga?