154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

áhrif hækkunar stýrivaxta á heimilin í landinu.

[14:08]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé hins vegar svolítið mikilvægt, af því að við erum að ræða þessi mál, að verðbólgan, hún er ekki séríslenskt fyrirbæri. Flest ríki hafa verið að kljást við hana að undanförnu og þau ríki sem hafa verið með hæsta verðbólgu hafa líka verið að glíma við mikla eftirspurn eftir vinnuafli. Við höfum verið að sjá að atvinnuleysi hefur verið að mælast mjög lítið á Íslandi og hér hefur verið talsverð þensla og það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Aðalatriðið núna er að ná þessari verðbólgu niður þannig að heimilin þurfi ekki að kljást við gríðarlegan vaxtakostnað árið 2024. Þessi ríkisstjórn er búin að forgangsraða allri efnahagsstjórnun í þágu þess. Ríkisfjármálin, Seðlabankinn er að gera sitt, bankarnir, við sjáum að ný útlán eru búin að dragast verulega saman, einkaneysla er að minnka. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta muni koma, en það er mjög mikilvægt að standa þessa vakt eins og hv. þingmaður hefur verið að gera.