154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

endurskoðun viðurlaga vegna vændiskaupa.

[14:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir fyrirspurnina og ég vil taka undir með hv. þingmanni að kaup á vændi er alvarlegt brot. Alvarleikinn felst ekki síst í því að seljandinn er, eins og hér kom fram, oftar en ekki í viðkvæmri stöðu; heimilislausar konur, konur í neyslu, tekjulágar konur o.s.frv., og við þekkjum það að það eru tengsl á milli mansals og vændissölu.

Vændiskaupaákvæði hegningarlaganna var breytt fyrir um 15 árum. Var þá horft til samsvarandi ákvæða í Svíþjóð og Noregi. Í dómsmálaráðuneytinu hefur á undanförnum árum farið fram viðamikil endurskoðun á mörgum ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Leyfi ég mér að benda á nýtt ákvæði um kynferðislega friðhelgi og ýmsar breytingar er varða kynferðisbrot gegn börnum, mansalsákvæði og ný ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum og svo umsáturseinelti.

Ekki hefur enn verið tekið til skoðunar hvort gera eigi breytingar á refsirammanum um kaup á vændi en ég útiloka alls ekki að það verði gert. Ég vil þó benda á að þegar skoðað er hvort eigi að breyta refsirammanum þá verði horft til þess að samræmi ríki á milli ýmsa refsiákvæða og að við horfum einnig til Norðurlandanna þegar slíkar breytingar eru skoðaðar. Í Noregi eru viðurlög við kaupum á vændi þau sömu og hér og í Svíþjóð er hámarksrefsing í fangelsi eitt ár og svo hefur sú breyting nýlega verið gerð á sænskum lögum (Forseti hringir.) að sektum verður ekki beitt.