154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:33]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að koma hingað upp og benda á góða punkta varðandi tillöguna sem við erum hér að ræða. Líkt og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson staldraði ég einnig við punkta hv. þingmanns um orkuöflun. Mín sýn á hvernig þessi stjórnarmeirihluti sér forgangsmálin sín hvað varðar umhverfis- og loftslagsmál er að þau séu bara aukin orkuöflun. Þetta er það eina sem þau hafa verið að leggja áherslu á á þessu kjörtímabili. En það er ekki hægt að botnvirkja allt Ísland og hugsa ekki út í viðhorf sveitarfélaganna sem verða fyrir beinum áhrifum virkjana, hvert viðhorf þeirra er gagnvart aukinni orkuöflun. Nú hafa sum sveitarfélög verið svolítið hávær hvað varðar ávinninginn sem þau hljóta af orkuframleiðslu í nærsamfélagi sínu og að þau verði fyrir skerðingum þegar kemur að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er auðvitað eitthvað sem þarf að líta til.

Ég er líka að fara í andsvar við hv. þm. Vilhjálm Árnason sem síðast þegar ég vissi var formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Er það ekki alveg rétt hjá mér? (VilÁ: Það er nýbreytt.) Nýbreytt? Jæja, ókei, þá vænti ég þess að hann sé í atvinnuveganefnd sem kemur auðvitað líka að orkumálum. Vatnsafl er heldur ekki ótakmörkuð auðlind og þá er verið að líta aðeins meira til vindorkunnar. Sveitarfélögin eru nú þegar búin að vera að nýta heimildina sína til að fresta gildistöku skipulags og þar með verða tafir á aukinni orkuuppbyggingu. Því spyr ég hv. þingmann: Er hann ekki kannski smá kominn á þann stað að líta þurfi til annarra þátta orkuskiptanna en bara aukinnar orkuöflunar; samþykkja fleiri virkjanir og fara t.d. að líta til flöskuhálsanna sem eru til staðar í leyfisveitingaferlinu, forgangsröðunar raforku og aukinnar þátttöku íbúa þegar kemur að samþykki virkjana?