154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[16:17]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsögu og yfirferð um þetta mikilvæga mál. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu, fagna þessu um leið, af því að hérna erum við með langtímasýn og svo fimm ára aðgerðaáætlun. Ég fagna þessu að sjálfsögðu sem fyrrum sveitarstjórnarmaður og nú áhugamaður um að styrkja og treysta þetta stjórnsýslustig. Þarna er, eins og hefur reyndar komið fram í umræðunni, margt mjög gott. Þó er til að byrja með ein setning hér sem ég skil ekki, þrátt fyrir að vera búinn að lesa hana 20 sinnum, með leyfi forseta:

„Tenging byggða og Íslands við umheiminn verði í jafnvægi við umhverfið.“

Ég átta mig ekki á þessari setningu. En hvað um það. Þarna, eins og ég segi, er margt mjög gott, góð langtímamarkmið eins og um að byggðir verði sjálfbærar og sveitarfélögin um allt land. Það eru hérna í lykilviðfangsefnunum tiltekin mörg atriði sem mér finnst vert að nefna eins og varðandi þetta sem við ræðum kannski ekki nógu oft, samt kemur fyrir að það er hér til umræðu í þessum sal, tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi verkefnaskiptinguna. Þá komum við auðvitað að því sem er snert á í þessu plaggi varðandi tekjuskiptinguna og hvernig við getum jafnað þessa stöðu og tryggt það að sveitarfélögin geti verið sjálfbær, geti staðið undir þeirri þjónustu sem löggjafarþingið felur sveitarfélögunum að takast á við hverju sinni. Það er eins og kemur fram, það er mikilvægt að það sé fyrirsjáanleiki, sveitarfélögin hafi fyrirsjáanleika inn í langa framtíð. Þess vegna er mikilvægt að við séum bæði að vinna hér með langtímasýn til 15 ára og svo séum við með aðgerðaáætlun til fimm ára og þetta er nauðsynlegt.

Annað sem er auðvitað snert á, ég kem aðeins inn á það á eftir, er þessi nærþjónusta, vegna þess að við höfum séð það, alveg sama hvaða verkefni sveitarfélögin hafa fengið í hendur frá ríkinu, hvort sem það eru grunnskólarnir eða málefni fatlaðra, að með þessari auknu nánd, nánd á milli íbúa og jafnvel kjörinna fulltrúa, þá eykst þjónustan og samhliða því eykst auðvitað kostnaðurinn. Þetta er bara raunverulegt, ég þekki sjálfur ágætlega að þetta gerist. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt vegna þess að við erum öll sammála um það, tel ég, sem störfum hér í umboði íbúa, að vilja veita góða, trygga og trausta þjónustu. Samt sem áður kemur það auðvitað niður á því að við þurfum á einhverjum tímapunkti, ég held að sá tímapunktur sé bara góður núna, að ræða hvernig við treystum þetta inn í framtíðina.

Ég ætla að leyfa mér aðeins að nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli og þá kemur að þessari aðgerðaáætlun til fimm ára. Hæstv. ráðherra hefur farið hér yfir það í sinni framsögu en ég ætla bara að endurtaka og nefna sérstaklega þessa tekjustofna og hvernig verður unnið úr þeim á komandi mánuðum. Svo er það endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, það er mjög mikilvægt að þetta nái fram að ganga vegna þess að þarna erum við með jöfnunartæki. Það eru ekki öll sveitarfélög í landinu sem hafa burði til að takast á við þessi verkefni. Þá er mikilvægt að þau sem sterkari eru taki þátt og að við jöfnum þessar byrðar, ef svo má segja, á milli sveitarfélaga.

Það er margt hérna sem ég ætla kannski ekkert að vera að nefna, en ég kem hér að 15. punktinum sem er þróun þjónustu við fatlað fólk; málaflokkur sem er í mínum huga og hjarta mjög mikilvægur. Þarna er auðvitað mjög brýnt að sveitarfélög og ríki — og ég veit að hæstv. innviðaráðherra og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra eru með og hafa verið í samtali um það hvernig við ætlum að taka á þessum málum inn í langa framtíð og ég ætla aðeins að koma kannski inn á orðræðuna tengda þessum málaflokki hér rétt í lokin, nefna fleiri atriði eins og stafræna umbreytingu. Við sjáum það bara að við erum að þróast mjög, við erum á tækniöld og við erum að þróast mjög hratt.

Sem dæmi, og ég átta mig ekki alveg á því hvort það nái hér til þessa, en ég þekki það bara úr mínu sveitarfélagi þar sem ég var á síðasta kjörtímabili að þar erum við enn þá bara, sem ég leyfi mér að nefna, eitt lítið dæmi, að skila byggingarteikningum handvirkt inn í þjónustuver. Það er ekki hægt að gera það rafrænt. Ég held að það sé mjög mikilvægt og mikill sparnaður sem felst í því að reyna að koma þessu í þessa stafrænu umbreytingu eða rafrænu þjónustu eða hvað við köllum þetta.

Annað gott er ábyrgðarskipting og að tryggja þessa samfellu í allri þjónustu. Svo er það auðvitað það allra mikilvægasta af öllu, vellíðan ungra barna og barnafjölskyldna vegna þess að þetta er framtíðin og skiptir mjög miklu máli og þá sérstaklega þessara viðkvæmu hópa sem eru taldir upp í plagginu, þ.e. þessara viðkvæmu hópa sem eru með andlegar og líkamlegar skerðingar, barna af erlendum uppruna og barna í erfiðum félagslegum og efnahagslegum aðstæðum, að það sé vel tekið utan um þennan hóp.

Eins og ég nefndi áðan finnst mér mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafi fyrirsjáanleika. Þess vegna er þetta plagg enn mikilvægara, að sveitarfélögin og við hér á þingi, löggjafinn og framkvæmdarvaldið horfi til langrar framtíðar í þessum málum.

Ég ætla aðeins að koma hér rétt í lokin, frú forseti, inn á atriði er varðar málaflokk fatlaðra. Það tengist auðvitað tekjuskiptingunni. Við höfum orðið vör við það í umræðu milli sveitarfélaga og ríkisins að það skorti fjármuni inn í málaflokk fatlaðs fólks. Ég sé hér, og reyndar vissi það, að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafði skipað nefnd til að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga við þjónustu við fatlað fólk. Það væri auðvitað áhugavert að heyra hvernig þeirri vinnu miðar og hvar hún sé stödd vegna þess að það er mjög mikilvægt að fá niðurstöðu í þetta tiltekna mál. Ég sé hér að síðasta setningin sem ég var sérstaklega búinn að stjörnumerkja hjá mér varðar það að það hefur farið alveg einstaklega mikið fyrir brjóstið á mér þegar ég hef séð kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu, bæjarstjóra, borgarstjóra jafnvel, benda á þennan tiltekna málaflokk sem ástæðu þess að sveitarfélögin séu rekin í halla, séu illa rekin. Það er aðeins komið inn á þetta í þessu skjali, ég ætla bara að lesa þetta orðrétt, með leyfi forseta:

„Langvarandi umræður um kostnaðarskiptingu eru líklegar til að koma niður á þjónustu ásamt því að valda vanlíðan meðal fatlaðs fólks.“

Mér finnst þetta lykilsetning í þessu vegna þess að orðræðan er oft með algerum ólíkindum, að það sé einn hópur tekinn út fyrir sviga og sagt í raun og veru: Þið eru ástæðan fyrir því að sveitarfélagið okkar er illa rekið og við náum ekki endum saman. Ég veit ekki og get ekki sett mig í stöðu fatlaðs fólks þegar svona orðræða er uppi en ég held að það sé engum til góðs að viðhafa orð sem þessi og ég bið bara fólk að vanda sig þegar við erum að nálgast umræðuna. Við erum meðvituð um að við þurfum að ná lendingu, þurfum að ná einhverri niðurstöðu í þessari tekjuskiptingu. Það er verkefnið og það á að vera verkefnið.